135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[15:48]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Þykjustuvísindamenn ráða nú ferð hjá Hafró. Vinnubrögð svokallaðra vísindamanna eru óvönduð og njóta ekki trausts skipstjórnarmanna og annarra sjómanna. Menn muna varla eftir öðrum eins aflabrögðum og hafa verið síðustu tvo mánuðina á þorski sem á að vera í útrýmingarhættu og er í sögulegri lágmarksúthlutun frá því í fyrra stríði eða þar um bil.

Það er ómögulegt að ætla að nota eina tegund af veiðarfærum til að mæla þorskstofninn eða aðrar tegundir í sjónum. Það þarf að taka tillit til fleiri veiðarfæra. Við notum línu, net, snurvoð og handfæri á grunnslóð, á djúpslóð notum við, og reyndar á grunnslóð líka að hluta, troll, línu og net. Það er ekki hægt að mæla þorskstofninn eða aðra fiskstofna með þessum hætti.

Maður hefur stundum spurt sig að því hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einar Guðfinnsson, sé varðhundur Hafró eins og hann er varðhundur LÍÚ-klíkunnar í öllum málum sem snúa að sjávarútvegi. Ef LÍÚ-klíkan leggur blessun sína yfir gjörningana þá er hann nánast ævinlega eins og hundur í bandi.

Rökin fyrir því að skera niður þorskstofninn voru á þann veg að menn ætluðu að draga úr veiðum og nota þetta í haffræðilegum tilgangi. Þeir töldu að það mætti draga úr vinnu á landsbyggðinni og tekjum af því það væri svo mikil þensla í þjóðfélaginu og LÍÚ ætlaði sér, með því að skera niður þorskkvótann, að ná (Forseti hringir.) restinni af veiðiheimildunum sem voru til víða á landsbyggðinni.