135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[15:50]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir þær hugrenningar hv. síðasta ræðumanns að hjá Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðherra hafi eitthvað annað verið á ferðinni en það að vilja haga fiskveiðum á Íslandsmiðum með sem bestum og vísindalegustum hætti. Hitt er síðan alveg rétt að þær ákvarðanir hafa valdið miklum búsifjum á landsbyggðinni og þess er óskandi og það er vonandi að þær fréttir sem berast af miðunum séu vísbending um að við getum aukið þorskveiðina fyrr en ætlað var. (Gripið fram í.)

Ég tel mikilvægt að hlusta á sjónarmið eins og þau sem komu fram hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem í krafti mikillar reynslu og þekkingar á þessum málum hefur bent á að við þurfum t.d. að hafa áhyggjur af því hvort brottkast kunni að aukast við þær aðstæður þar sem þorskstofninn og þorskveiðin er þetta lítil á meðan veiði í öðrum tegundum eins og ýsu er mikil. Það er rétt að hafa þetta í huga.

Um leið vil ég ítreka þá skoðun mína, sem hefur margoft komið fram, að ég tel að við verðum að gera þær breytingar á umhverfi hafrannsókna á Íslandi og Hafrannsóknastofnunar að kalla fram meiri og betri vísindalegar umræður um þetta mikilvæga hagsmunamál okkar Íslendinga. Á meðan um er að ræða einungis eina ríkisrekna stofnun sem hefur allt að því einokunarstöðu í þessari vísindagrein er við því að búast — og það er eðlilegt að uppi séu raddir sem hafa áhyggjur af og telja, og oft með góðum rökum, að ekki sé haldið rétt á. Ég er enginn dómari í slíkri sök og get ekki tekið afstöðu sem slíka. En ég tel affarasælast fyrir okkur að huga vel að því — í kjölfar þeirra skynsamlegu breytinga sem núverandi sjávarútvegsráðherra hefur gert, að auka aðgengi vísindamanna annarra en Hafró að gögnum — að skoða í fullri alvöru hvort við getum byggt upp, innan vébanda Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri eða annarra slíkra menntastofnana, (Forseti hringir.) getu til að veita Hafrannsóknastofnun það aðhald sem nauðsynlegt er til að fá betri og öruggari niðurstöður í einu mikilvægasta hagsmunamáli okkar Íslendinga.