135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[15:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir að nefna hér þær vísbendingar sem koma fram í nýjasta togararalli um stöðu þorskstofnsins. Vissulega ber að fagna því að nokkrar jákvæðar vísbendingar koma þar fram um bætta stöðu ákveðins hluta stofnsins að minnsta kosti.

Ég vil þó taka undir orð hv. þm. Björns Vals Gíslasonar um þann ágreining sem ríkir um gildi þessa togararalls, m.a. vegna aðferðafræðinnar sem notuð er. Háværar kröfur hafa verið uppi um að víkka þurfi þær aðferðir út þannig að þær njóti meiri trúnaðar hjá sjómönnum.

Ég vil líka leggja áherslu á það sem við höfum lagt hér fram, þingmenn Vinstri grænna, um nánara samstarf á milli sjómanna, rannsóknaraðila og útgerðarmanna um stöðu og mat á fiskstofnunum. Við höfum einmitt lagt til þá hugmyndafræði að sjómenn græði hafið, að það sé beintengt. Og þar finnst mér enn skorta á.

Ég vil líka vekja athygli á því að með niðurskurði á þorskheimildum þrengdi hæstv. sjávarútvegsráðherra flotanum inn í meiri og harðari ýsuveiðar. Að því er ég best veit voru stærðarmörk á þeirri ýsu sem mátti veiða skorin niður og það kemur okkur kannski í koll síðar meir.

Þá vil ég í lokin, herra forseti, draga athygli að því að hækkanir á verði olíu stefna Hafrannsóknastofnun í mikinn vanda. Talað er um 50 millj. kr. aukningu (Forseti hringir.) á kostnaði vegna þeirrar hækkunar. Ég spyr ráðherra: Verður þeim bætt þetta upp (Forseti hringir.) eða verður Hafrannsóknastofnun að skera niður veiðidaga um 10 eða 20 á árinu?