135. löggjafarþing — 92. fundur,  16. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[16:08]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Starf íslenskra stjórnvalda að öryggis- og varnarmálum hefur um áratuga skeið byggt á ólögfestum venjum og ekki sætt lýðræðislegu eftirliti með fullnægjandi hætti. Sem dæmi má nefna að heildarumfang samninga sem íslensk stjórnvöld gerðu við Bandaríkjamenn um landvarnir 1951 varð Alþingi ekki ljóst fyrr en eftir brottför varnarliðsins 2006, 55 árum seinna.

Með setningu laga um varnarmál er bundinn endir á þetta ástand. Nú verða heimildir stjórnvalda til aðgerða á sviði varnarmála í fyrst sinn takmarkaðar með lögum og gagnsæi og lýðræðislegt eftirlit með þeim tryggt. Þá er í fyrsta sinn leitt í lög að starf Íslendinga að varnarmálum skuli einungis vera borgaralegs eðlis og það aðskilið frá almennri öryggisgæslu lögreglu og landhelgisgæslu. Þessi tímamótalöggjöf er því kærkomin fyrir alla áhugamenn um sjálfstæða utanríkisstefnu þjóðarinnar. Nú er endanlega bundinn endir á tíma kalda stríðsins í íslenskum varnarmálum.