135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

tilhögun þingfundar.

[10:37]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil þá biðjast afsökunar á því ef ég er að fara með fleipur í ræðustóli Alþingis. En þær upplýsingar sem ég hef frá þingflokksformannafundum eru þær að ekki hafi verið tekin ákvörðun um lengdan fund í dag.

En það eru aðrir hlutir sem líka rekast á við dagskrá þingsins í dag. Þar vil ég nefna aðalfund Ríkisútvarpsins ohf. sem er boðaður kl. tvö. Samkvæmt nýjum lögum er þingmönnum heimilt að sitja fund þessarar nýju stofnunar. Það er eðlilegt að þingmenn hafi löngun til þess að sitja þennan fund. Ég gerði jafnvel ráð fyrir því að hæstv. menntamálaráðherra ætli að sitja hann. Mér fyndist óeðlilegt að hún gerði það ekki. Á sama tíma eru á dagskrá þrjú afar mikilvæg mál sem hæstv. menntamálaráðherra ætlar að tala fyrir. Ég veit ekki hvernig hæstv. ráðherra eða stjórn þingsins ætlar að samræma þessa hluti fyrir utan það að eftir því sem mér skilst munu þingmenn Norðvesturkjördæmis vera á leið út á land í kjördæmi sitt að ræða við sveitarstjórnarmenn um miðjan dag. Ég sé ekki annað en hér rekist hvað á annars horn í stjórn þingsins í dag, hæstv. forseti.