135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

NMT-kerfið og öryggismál.

[10:49]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín til samgönguráðherra snýr að öryggisþætti þess þegar breytt verður um hið svokallaða langdræga farsímakerfi sem núna er NMT-kerfi en við stefnum á það að taka upp þriðju kynslóð farsímakerfisins sem mun þá dekka þau svæði sem NMT-kerfið dekkar í dag. Þó er rétt að geta þess að NMT-kerfið dekkar ekki öll svæði. Það eru t.d. nokkrir blettir á Vestfjörðum nálægt landi og undir háum fjöllum, eins og fyrir Hornstrandir, þar sem NMT-kerfið virkar ekki og mér ekki ljóst hvort hið nýja farsímakerfi muni virka þar heldur. Það gerir heldur ekki metrabylgjukerfið þ.e. VHF-kerfið svokallaða, og þar erum við auðvitað komin inn í tilkynningarskyldumálin og það öryggishlutverk allt saman þar sem við erum með sjálfvirka tilkynningarskyldu.

Þess vegna spyr ég hæstv. samgönguráðherra hvort farið verði gaumgæfilega yfir þá stöðu sem upp kemur um næstu áramót þegar farsímakerfið sem nú er, NMT-kerfið, verður lagt af, hvort við séum þá örugglega þannig í stakk búin fyrir framhaldið að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að skipta um kerfi sem á sér stað á versta tíma ársins, þ.e. yfir svartasta skammdegið og háveturinn og sendarnir eru yfirleitt staðsettir uppi á fjöllum. Það væri auðvitað afar bagalegt ef upp kæmi sú staða að öryggiskerfi okkar væri ekki til staðar af einhverjum orsökum. Ég vek athygli á þessu við hæstv. samgönguráðherra og vil að hann svari þessum hugleiðingum mínum.