135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

NMT-kerfið og öryggismál.

[10:51]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mál og vekja máls á því á Alþingi. Eins og við vitum verður hið langdræga 450 MHz farsímakerfi, NMT-kerfið, lagt af um næstu áramót eins og löngu hefur verið ákveðið. Það eru margar ástæður fyrir því. Kerfið er dýrt, varahlutir fást ekki í það og fáir notendur. Í staðinn sjáum við núna að farsímafyrirtækin eru hvert á fætur öðru að setja upp hið nýja kerfi, langdræga kerfi á 900 eða 1.800 tíðnisviðinu, sem nær langt út á haf og upp á fjöll. Eins og ég hef áður sagt er ánægjulegt að segja að um næstu áramót, ef áætlanir farsímafyrirtækjanna ganga eftir og það sem Fjarskiptasjóður er að gera, verður Ísland allt orðið farsímavætt fyrir GSM-tæknina og langt út á haf.

Vegna þess sem hv. þingmaður ræddi hér, sem er eðlilegt að hann geri, um tilkynningarskylduna og öryggi sjófarenda á litlu bátunum, þá átti ég nýlega fund með forstjóra Neyðarlínunnar, Þórhalli Ólafssyni, og þar var m.a. farið yfir þessi atriði. Ég er nokkuð viss um að þessi mál eru öll í fínum farvegi og öryggi sjófarenda verður auðvitað ekki stefnt í hættu um hávetur þegar þetta gerist. Neyðarlínan er nú að setja upp nýjan útbúnað fyrir allt að 300 millj. kr. sem á að vera tilbúinn 1. ágúst næstkomandi og hann á að dekka m.a. það sem hv. þingmaður talaði um.

Ég vil svo segja, virðulegi forseti, út frá því sem hv. þingmaður ræddi, að við skulum skoða þetta vel og það verður auðvitað ekki tekin nein áhætta með því. Ég er þess nokkuð fullviss að þau (Forseti hringir.) áform sem ég hef verið að segja hér frá munu ganga eftir og þá verður öryggi sjófarenda ekki stefnt í neina hættu þó svo að NMT-kerfið leggist af 1. janúar næstkomandi.