135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

vegalög.

[11:05]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr enn einu sinni um Sundabraut, þetta eru eins konar raðspurningar. Hann les hér upp úr 28. gr. og öllu því sem fjallað er um þar. Ég hef ekki neinu við það að bæta en hv. þingmaður talar um að greininni hafi aldrei verið beitt.

Nei, það er alveg hárrétt. Þessari grein hefur sennilega aldrei verið beitt en það hefur verið boðað a.m.k. einu sinni ef ekki tvisvar að henni kynni að verða beitt ef ekki næðist samkomulag. Ekki kom þó til þess að beita þyrfti greininni þar sem samkomulag náðist.

Virðulegi forseti. Man ég það kannski e.t.v. rétt eða er það rangt munað hjá mér að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hafi setið í nefnd sem var að undirbúa nýju vegalögin? (ÁÞS: ... rétt munað.) Hann hefur þá væntanlega verið einn af þeim sem lagði blessun sína yfir þessa umræddu grein og þá skýringu með þeirri grein sem þar kemur fram. Alla vega veit ég og það kemur fram að hv. þingmaður sat þá sem fulltrúi Vinstri grænna í þessari nefnd og félagar hans á Alþingi samþykktu þessi lög. (ÁÞS: Vinstri grænir ...) Já, þannig var það nú. En þetta er ekki alveg svona einfalt eins og hann setur fram og sem betur fer gerist svona ekki oft. En takið eftir, það eru ef til vill tvö mál í farvatninu núna, annars vegar þetta mál og hins vegar lega um Hornafjarðarfljót. Hér er ekki verið að víkja sér undan neinni ákvörðun, virðulegi forseti, alls ekki.

Komið er að drögum að umhverfismati varðandi þetta mál. Nokkrar athugasemdir komu inn og verða settar fram, verið er að vinna að málinu. Má ég líka aðeins minna á, virðulegi forseti, að í apríl 2006 var ákveðið í verkefnahóp fyrir Sundabraut að tillögu fulltrúa frá Reykjavíkurborg að kanna Sundagangaleið og það var ekki fyrr en í ágúst í fyrra sem tilraunaborunum lauk þar. Þess vegna er málið í þessu ferli. Í framhaldi af beiðninni um að kanna Sundagangaleið (Forseti hringir.) sagði einn borgarfulltrúi að með þeirri ákvörðun mundi verkið tefjast um mörg ár.