135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:28]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að megintilgangurinn sé að skólarnir búi allir við eitt og sama lagaumhverfið. Vissulega má til sanns vegar færa að það geti verið skynsamlegt. En á það ber þá líka að líta að það eru fleiri háskólar en opinberir háskólar og eðlilega þurfa þeir allir að búa við sambærilegar aðstæður ef þeir eiga að starfa, geta keppt um nemendur og boðið fram nám sitt.

Fjármögnunin er auðvitað kjarninn í þessu máli. Mér sýnist á öllu að hér sé sami skollaleikurinn viðhafður og verið hefur á undanförnum árum. Hér er verið að setja peninga til annarra háskóla en opinberra háskóla eftir öðrum leiðum þannig að þeir fá meira fé úr ríkissjóði til þess að standa undir starfsemi sinni en opinberu háskólarnir.

Þar með eru skólar eins og Háskóli Íslands settir í ósanngjarna stöðu við aðra háskóla eins og Háskólann í Reykjavík í samkeppni um starfsmenn. Ríkið sjálft dælir peningum úr ríkissjóði í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna inn í einkaháskólana til þess að þeir geti yfirboðið starfsfólk Háskóla Íslands og dregið það þaðan út yfir í einkaháskólana.

Þetta er skollaleikur, virðulegi forseti. Hæstv. menntamálaráðherra vinnur að því að brjóta niður opinberu háskólana. Þetta er pólitísk stefna sem verið er að hrinda hér í framkvæmd og var deilt um í tíð allra síðustu ríkisstjórnar.

Ég hlýt að spyrja: Er það enn þá svo að ný ríkisstjórn ætli að leggja lið þessum skollaleik hæstv. menntamálaráðherra?