135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Komið er til umræðu frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um opinbera háskóla. Ég sé ekki ástæðu til annars en að fagna því að það mál skuli vera komið fram og okkur gefist kostur á að ræða það. Þó að við höfum fullar hendur í hv. menntamálanefnd og hefðum alveg getað kosið að fá frið til að klára þau fjögur stórmál sem þar eru til mjög ítarlegrar skoðunar, svo ítarlegrar að öll önnur mál sem komið hafa inn í nefndina síðan í desember hafa orðið að víkja, þá fagna ég því engu að síður að málið skuli komið fram, hvort sem ég sé það fyrir mér að nefndin geti klárað vinnu sína við það fyrir vorið eður ei.

Ekki þarf að deila um það að háskólamenntun verður sífellt mikilvægari í þjóðfélagi okkar, æ fleiri atvinnugreinar gera kröfu um háskólapróf og sívaxandi hluti hvers kyns náms hérlendis er á háskólastigi. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og flokkurinn allur hefur í gegnum tíðina fagnað hverju nýju tækifæri sem ungt fólk fær til náms. Þetta vil ég undirstrika í upphafi máls míns til að tryggja að ekki verði snúið út úr orðum mínum eins og reynt var að gera hér, meira að segja af hæstv. menntamálaráðherra, með frammíköllum í gærdag. Við erum sannfærð um að sú þróun sem farin er af stað haldi áfram. Er það trúa mín að með tímanum verði háskólanám af einhverju tagi lokaáfangi að meira eða minna leyti að allri almennri menntun. Af þessu leiðir að menntun verður stöðugt mikilvægari sem lykill að fjölbreyttum atvinnutækifærum og að sama skapi enn þá þýðingarmeiri fyrir atvinnulíf og fyrir samfélag. Þess vegna erum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs líka fylgjandi því að öflugt samstarf sé milli atvinnulífsins og háskólanna þó svo að við séum ekki hlynnt því að ganga jafnlangt og sú ríkisstjórn sem nú situr er tilbúin til að ganga og kem ég síðar að því þegar ég fjalla um skipun háskólaráðsins eins og lagt er til í frumvarpinu.

Ég vil segja í inngangi mínum áður en lengra er haldið, hæstv. forseti, að að mati okkar sem störfum fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð er lykilatriðið að tryggja jafnrétti til náms, jafna stöðu þeirra sem sækjast eftir háskólanámi. Í þeim efnum komum við að skólagjaldaumræðunni sem hv. þm. Björn Valur Gíslason hóf í umræðu um störf þingsins í gærmorgun og kom heldur betur við kaunin á sumum þingmönnum (Gripið fram í.) og olli hér miklum frammíköllum og ég heyri ekki betur en þau séu að hefjast á nýjan leik.

Það er hárrétt að umræðan um skólagjöld er lykilumræða í pólitík dagsins í dag, skólamálapólitík dagsins í dag snýst ekki hvað síst um jafnrétti hvað varðar þennan þátt málsins, þ.e. skólagjöld eða ekki skólagjöld. Mig langar til að dvelja strax við þetta atriði og kýs að eyða megni ræðutíma míns í umræðu um það. (Gripið fram í: Enda full ástæða til þess.) Full ástæða til þess, segja tveir hv. þingmenn. (SKK: Frumvarpið fjallar ekki um skólagjöld.)

Ég skal taka þennan punkt frá hv. formanni menntamálanefndar strax, frumvarpið fjallar ekki um skólagjöld. Hvers vegna skyldi það nú vera? Það er vegna þess að það er núningur á milli samstarfsflokksins sem núna er í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Sjálfstæðisflokksins og þar af leiðandi núningur milli hæstv. menntamálaráðherra og Samfylkingarinnar í þessum efnum. Það kom fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur í gær sem las skilmerkilega úr stefnumarkandi plaggi Samfylkingarinnar að Samfylkingin væri andvíg skólagjöldum. Sjálfstæðisflokkurinn er það ekki. Ástæðan fyrir því að ekki er fjallað um skólagjöld per se í þessu frumvarpi er auðvitað sú að þarna eru andstæð sjónarmið.

Á hitt vil ég þó benda að þingmenn Samfylkingarinnar hafa á ólíkum tímum opnað munninn og talað og tjáð sig um það að þau séu opin fyrir umræðu um skólagjöld. Margir þingmenn Samfylkingarinnar, þar á meðal hæstv. viðskiptaráðherra og ef ég man rétt hæstv. utanríkisráðherra, hafa opnað á það að hugleiða megi að þeirra mati að taka upp skólagjöld í framhaldsnámi í háskóla. Einu sinni var lína Samfylkingarinnar dregin þar að ekki ætti að setja skólagjöld á grunnnámið. Ég veit ekki hvort svo er enn en það á vonandi eftir að koma fram hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar í þessari umræðu.

Eitt af lykilatriðunum í umræðu um stöðu háskólanna þarf að koma til nánari skoðunar í þessari umræðu, þ.e. að jafna samkeppnisstöðu háskólanna, sem ég heyri ekki annað en allir séu sammála um að þurfi að gera í orði kveðnu. Þá er spurningin: Hvernig gerum við það og hvernig er samkeppnisstaðan ójöfn? Það er hárrétt sem hæstv. menntamálaráðherra sagði í andsvari við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson áðan að það væri rangt að opinberir háskólar fái minna úr ríkissjóði en einkaháskólar. Það er í sjálfu sér rétt fullyrðing hjá hæstv. ráðherra en það er ekki þar sem aðstöðumunurinn er ójafn. Aðstöðumunurinn verður ójafn þegar ofan á opinbera framlagið, sem er jafnhátt á nemanda í opinbera háskólanum og nemanda í einkaháskólanum, koma skólagjöld og að auki lán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna til þeirra nema sem borga skólagjöld. (Menntmrh.: Ekki gleyma rannsóknarstyrkjunum.) Við skulum vera minnug þess að u.þ.b. helmingur af námslánunum er beinlínis styrkur þannig að meðgjöfin sem einkareknu háskólarnir fá nemur öllum skólagjöldunum. Hvað skyldu þau vera há?

Ég er hér með upplýsingar um skólagjöld í Háskólanum á Bifröst. Ég sé ekki betur en að í frumgreinadeild þar séu skólagjöldin á ársgrundvelli þar 262 þús. kr á ári og í meistaranámi 352 þús. kr. Ég tel að þetta sé á ársgrundvelli en þó gæti þetta verið fyrir önnina, ég læt það kannski liggja á milli hluta. Það sem ég veit um Listaháskólann er að skólagjöld í vetur kostuðu skólanema í þeim skóla 255 þús. kr. og það mun hækka næsta vetur upp í 285 þús. kr. Skólagjöld í Háskólanum í Reykjavík sýnast mér vera í grunnnámi 272 þús. kr. og í meistaranámi 622 þús. kr. Reyndar er þar annað meistaranám sem kallað er meistaranám II, þar eru 728 þús. kr. greiddar í skólagjöld. Síðan má nefna MBA-námið í Háskólanum í Reykjavík sem kostar 1,3 millj. kr. á ári. (SKK: En í Háskóla Íslands?) Ég ætla ekki að taka meistaranámið til skoðunar hér vegna þess að MBA-námið lýtur kannski öðrum lögmálum. Háskóli Íslands tekur skólagjöld fyrir MBA-námið og setur það undir Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands af því að Endurmenntunarstofnun er heimilt samkvæmt lögum að taka skólagjöld.

Þetta er auðvitað eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan skollaleikur, hér er um skollaleik að ræða. Einkaháskólunum er mismunað ekki bara hvað þetta varðar, að þeim sé heimilt að taka skólagjöld af nemendum sínum og fá gríðarlega háar upphæðir umfram framlagið frá ríkissjóði til starfsemi sinnar, heldur er þeim líka mismunað á öðrum stað í hinu opinbera kerfi og það er í fjárlögunum. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar frá í haust getur að líta heimildir skólanna til að taka inn nemendur og það kemur í ljós að heimildir einkaháskólanna til að taka inn nemendur eru mun rýmri en heimildir opinberu háskólanna. Hvað þýðir það, hæstv. forseti? Það þýðir að núverandi ríkisstjórn vill að nemendur fari í auknum mæli í einkaskólana og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er þess vegna afar hlynnt einkarekstrarforminu í háskólunum. Undir það hlýtur Samfylkingin að verða að kvitta.

Þegar á allt er litið skiptir mestu máli þegar talað er um misjafna stöðu háskólanna að skoða heildarfjárframlagið sem hver skóli hefur úr að spila á hvern nemanda. Þá kemur út miklu hærri fjárupphæð sem einkaháskólarnir hafa úr að spila á hvern nemanda en það sem opinberu háskólarnir hafa, jafnvel þó að rannsóknarframlögin séu tekin með í dæmið. Nú er að færast í vöxt að einkaháskólarnir óski eftir rannsóknarsamningum og vilji fá aukið framlag vegna rannsókna sinna því að þeir vilja í auknum mæli hasla sér völl sem rannsóknarháskólar. Ég geri ekki athugasemd við það, en ég geri athugasemd við það að mismununin skuli vera með þeim hætti sem hún er og að ríkisstjórnin skuli leyfa sér að beina háskólanemum í auknum mæli og frekar inn í einkaháskólana en í þá opinberu.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerðum mjög alvarlegar athugasemdir við það þegar Tækniháskóli Íslands var einkavæddur, þegar ákvörðun var tekin um að leggja hann niður og færa stærstan hluta þess náms sem þar var í boði undir einkahlutafélag sem lagði á skólagjöld. Mig minnir að Samfylkingin hafi staðið við hliðina á okkur í þeirri deilu sem við áttum þá. (EMS: Já, mig minnir það.) Með þessari breytingu sögðum við Vinstri hreyfingin – grænt framboð að jafnrétti til náms í tæknigreinum á Íslandi mundi skerðast verulega vegna þess að þá voru ákveðnar greinar lokaðar inni í einkaháskóla og ekki lengur hægt að nema þær greinar öðruvísi en að greiða fyrir það há skólagjöld. Til þess að koma í veg fyrir slíkt misrétti lögðum við fram frumvarp á 131. löggjafarþingi sem lesa má á þskj. 808 þar sem gert var ráð fyrir því að sjálfseignarstofnunum á háskólastigi og einkareknum háskólum væri óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunduðu nám í greinum sem ekki væri unnt að leggja stund á í ríkisháskólunum. Við höfum einlægt verið samkvæm sjálfum okkur hvað varðar skólagjaldamálin og skólagjaldapólitík. Við viljum tryggja fjölbreytt nám á háskólastigi. Ef einkaháskólar kjósa að leggja skólagjöld á nemendur sína verða þeir að lúta skertu framlagi frá hinu opinbera enda skulum við reikna með því að framlag hins opinbera á hvern nemanda nægi fyrir menntun viðkomandi einstaklings, eða hvað?

Nú kann að vera að einhverjir staldri við. Kannski er það líka þar sem skórinn kreppir, að það þurfi að hækka opinbera framlagið, að það nægi ekki lengur fyrir þeirri kennslu sem háskólarnir meta að þörf sé á að hver einstaklingur fái. Ef það er mergurinn málsins erum við líka alveg tilbúin til að skoða það.

Grunnprinsippið er í öllu falli þetta: Framlagið frá hinu opinbera til hvers háskólanema eða til háskólanna á hvern nema þarf að vera svo hátt að það nægi fyrir menntun viðkomandi. Kjósi einkaháskólarnir að fara inn á skólagjaldabrautina, sem þeir hafa allir kosið hingað til, hljóti hið opinbera framlag að skerðast sem því nemur. Það þýðir að við erum að jafna stöðu háskólanna þannig að hverjum og einum nema fylgi álíka há upphæð, sú upphæð sem háskólasamfélagið og stjórnvöld eru sammála um að þurfi til að gefa viðkomandi einstaklingi grunnmenntun eða haldgóða menntun í viðkomandi háskóla.

Hæstv. forseti. Ég sé að það hefur gengið mikið á ræðutíma minn enda eru skólagjöld mér og okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hjartans mál. Ég tel að félagar mínir sem hér munu taka til máls komi kannski frekar inn á aðra þætti málsins, það er mjög margt sem þarf að skoða í þessu máli. Ég nefni skipan háskólaráðs sérstaklega. Ég nefni það að okkur þingmönnum hefur verið send bæði ályktun og greinargerð frá Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta, sem harmar það að nýtt frumvarp til laga um opinbera háskóla feli í sér fækkun fulltrúa stúdenta í háskólaráði. Ég tel að við hljótum að verða að taka til skoðunar þau rök sem þar eru færð fram. Við fyrstu sýn sýnast mér þau vera afar skynsamleg. Við þurfum líka að tala um þessa nýju orðanotkun. Máltilfinning mín setur örlítið spurningarmerki við notkun á orðinu skóli, skóli innan skóla. (EMS: Skóli innan skóla, já.) Ég minnist þess þegar leikhúsfrömuðurinn Bertolt Brecht var að setja upp leiksýningar sínar og kom inn í leikhús þar sem Stanislavski, sem var mikill frömuður í rússnesku leikhúsi, vildi hafa allt mjög náttúrulegt í leikhúsinu og allir áttu að vera eins sannir og hugsast gat, hann lét byggja heilu húsin á leiksviðinu til að fólk tryði því sem það sá á leiksviðinu. En þegar Bertold Brecht leiddi barn inn í slíkan leikhússal og barnið sá húsið á leiksviðinu sagði það: „Abba babb, hús inni í húsi.“ Kannski erum við að tala um skóla inni í skóla, sem kann að vera eitthvað sem við þurfum að skoða betur.

Ég kann því hins vegar vel að hér skuli vera talað um forseta og forseta skóla, það er starfsheiti eða titill sem hið akademíska háskólasamfélag hefur notað hingað til, forsetar deilda, ég er sátt við það. En hitt legg ég til að við skoðum (Forseti hringir.) og kannski eru einhverjar skapandi hugmyndir í þeim efnum sem við eigum enn eftir að sjá.