135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:08]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um opinbera háskóla ef það hefur farið fram hjá einhverjum hv. þingmönnum því að umræðan hefur farið um víðan völl og kannski ekki eingöngu um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Hæstv. menntamálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu og fór yfir helsta inntak þess. Það er auðvitað fagnaðarefni fyrir okkur í menntamálanefnd að fá líka frumvarp um háskólastigið. Þá erum við komin með öll skólastigin undir á svipuðum tíma og það er auðvitað ekki nema ánægjulegt verkefni þó að það sé býsna erfitt að glíma við það. Segja má að þetta frumvarp sé skilgetið afkvæmi rammalaga um háskóla sem við samþykktum á síðasta þingi ef ég man rétt. Nú eru sem sagt sett sérstök lög um opinbera háskóla sem nauðsynlegt er af ýmsum ástæðum.

Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. menntamálaráðherra að búnaðarfræðslan er utan við það og bráðabirgðaákvæði eru um það. Það er hins vegar alveg nauðsynlegt að þeir opinberu háskólar verði líka settir undir þegar þar að kemur og að þessir skólar sitji allir við sama borð.

Það er tekið á skipulagsbreytingum sem nauðsynlegar eru og mikill áhugi hefur verið í Háskóla Íslands á að gera. Það tengist beint og óbeint sameiningu við Kennaraháskólann. Það er kannski meginástæðan fyrir því að það liggur á að þessu máli ljúki fyrir þinglok þannig að sú sameining geti átt sér stað við eðlilegar aðstæður 1. júlí nk. Það kallar hins vegar á að samræma þarf ýmsa hluti líka milli þeirra háskóla sem þetta frumvarp á við. Það eru þá Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri. Þar kemur t.d. skipan háskólaráðsins til þar sem verið er að fækka fólki í háskólaráði Háskóla Íslands miðað við það sem var en fjölgað er í háskólaráði Háskólans á Akureyri. Það er spurning hvaða leiðir á að fara í þessu sambandi og auðvitað er eðlilegt að menntamálanefnd fari sérstaklega yfir þessa skipan. Fleiri möguleikar eru væntanlega þarna uppi. Mér sýnist hins vegar að þessi skipan sé um margt athyglisverð og sé blanda af leiðum, byggð á samkomulagi sem menn hafa náð á einhverju stigi. Ýmsar spurningar hafa vaknað varðandi það að meiri hluti ráðsins verður skipaður fulltrúum utan háskólasamfélagsins. Háskólasamfélagið hefur meiri hluta í ráðinu þegar tveir af hinum utanaðkomandi eru valdir þannig að háskólasamfélagið getur, ef ástæða er til — en væntanlega verður samkomulag um það hvaða tveir einstaklingar eru hæfastir til að koma inn í ráðið til þess að efla það og styrkja. Þá verða það sem sagt menn innan háskólasamfélagsins sem velja þessa tvo til viðbótar, sem er mikilvægt í þessu sambandi. Mér finnst eðlilegt að við förum yfir þetta og skoðum sérstaklega hvort hugsanlega sé eitthvert annað form betra. Það er augljóst mál að þetta er nokkuð viðkvæmt gagnvart háskólastúdentum. Háskólafylkingarnar hafa verið tvær lengst af, nokkuð jafnvígar og mismikill munur hefur verið á þeim þegar tekist hefur verið á í kosningum. Báðar fylkingar hafa alltaf átt fulltrúa í háskólaráði. Þetta er alla vega umræða sem við verðum að fara yfir.

Eðlilega hefur nokkuð verið rætt um fjárhagsmálefni skólanna. Þau skipta auðvitað gífurlega miklu máli. Það er kostur við þetta frumvarp að í 24. gr. eru heimildir sem skólarnir hafa til að afla sér fjármuna utan þess sem fjárlög ákvarða, settar í eina grein. Fram að þessu hefur þetta verið á víð og dreif og jafnvel sum ákvæði ekki nægilega skýr. Hæstv. menntamálaráðherra fullyrðir, og er óþarfi að gera athugasemdir við það, að hér sé ekki um grundvallarbreytingar að ræða. Hér er hins vegar um orðalagsbreytingar að ræða og við þurfum auðvitað að fara yfir að það sé alveg tryggt að hér sé ekki verið að víkka eitthvað sem fyrir var. Það orðalag verður skoðað nákvæmlega í menntamálanefndinni. Hér er hins vegar brugðist við áliti frá umboðsmanni Alþingis varðandi ákveðna þætti sem deilt hefur verið um. Það er, eins og við vitum, nauðsynlegt að allar slíkar heimildir séu mjög skýrar í lögum því að í raun og veru má annars líta þannig á að heimildir séu ekki til staðar. Það þarf auðvitað að vera skýrt skipulag í þeim efnum.

Frú forseti. Ég held að það sé eðlilegt að við stöldrum aðeins við umræðuna um fjármál skólanna. Við hófum umræðu um þessi mál í gær þar sem fyrst og fremst var þó horft til skólagjalda. Umræðan hefur nú þegar nokkuð farið í þann farveg. Ég sagði í gær að sú umræða væri flóknari en svo að hún færi vel í því umræðuformi sem við vorum með í gær, þ.e. í tveggja mínútna ræðu, enda kom í ljós að nokkrir hv. þingmenn sögðu ýmislegt sem þeir meintu kannski ekki og auðvelt var að misskilja. Ég tók t.d. eftir því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði tilraun til þess að skýra málin og mér fannst það virðingarverð tilraun. Hún skýrði málið varðandi það sem hv. þingmaður sagði í gær, að draga ætti frá þau skólagjöld sem aðrir háskólar en opinberu háskólarnir taka til sín. Það mátti þá auðvitað skilja að það ætti að skerða framlagið til Listaháskóla Íslands sem því næmi. Nú segir hv. þingmaður að það hafi alls ekki verið meiningin og ég trúi því heldur ekki að það hafi verið skoðun hv. þingmanns að þannig ætti að fara að. Hv. þingmaður telur þó að í þess stað eigi að auka framlagið til skólanna þannig að þeir geti rekið starfsemina með þeim hætti sem þeir telja eðlilegt. Það væri auðvitað æskilegt í heimi allra bestu heima að hver skóli gæti sett óskalista sinn fram og ríkissjóður yrði síðan við þeirri beiðni. Ég held samt að raunveruleikinn sé annar og það sé okkur afar nauðsynlegt, þegar við erum að skipta þeim fjármunum sem við höfum, að ferlið sé sem gegnsæjast og að reglur séu um það. Vegna umræðu og skoðanaskipta sem áttu sér stað milli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur, um mismunandi nálgun varðandi framlög til háskólanna, þá er ekki hægt að segja að ein nálgun sé rétt í þeim samanburðarfræðum.

Hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir tók heildarúthlutun fjár til Háskóla Íslands og síðan heildina til Háskólans í Reykjavík og þá var Háskóli Íslands 15% yfir. Það hallaði sem sagt á Háskólann í Reykjavík í þeim samanburði. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom svo með annan samanburð um að í fjárlögum fyrir þetta ár væri gert ráð fyrir hlutfallslega meiri fjölgun í Háskólanum í Reykjavík en í Háskóla Íslands og komst þá að því að það hallaði í hina áttina. Ég held að hvorugt sé út af fyrir sig alveg rétt í samanburðinum. Ég held að málið sé í raun og veru miklu flóknara. Ég held líka að það hafi verið tilgangurinn hjá hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur, að benda á að ekki væri hægt að bera þetta saman á svona einfaldan hátt.

Námsferill nemenda í háskóla er misjafnlega dýr og það er auðvitað hluti af þessu. Við áttum okkur á því að þegar skólar eru að fara af stað, sérstaklega þeir sem ekki eru opinberir, þá verður að skoða þær reikniformúlur sem eru til staðar og átta sig á því hvar best er að byrja. Hvernig verður sem mestu fjármagni náð frá ríkinu þannig að það nýtist sem best við uppbyggingu skólanna? Þeir nemendur eðlilega valdir úr sem talið er að fari frekar ódýra leið á námsferlinum á meðan verið er að treysta grunn skólanna.

Síðan er spurningin: Hvernig heldur sú þróun áfram ef ekkert annað er gert en þetta? Þá er hætt við því að við fáum miklu einsleitari skóla við hliðina á opinberu háskólunum. Viðskiptafræðin er kennd í mörgum skólum en kennaramenntunin hefur verið talin ein af þeim greinum sem kemur hvað best út úr reiknilíkani. Þess vegna hafa skólar lagt áherslu á það — og ég hef tekið eftir því að Háskólinn í Reykjavík hefur opnað leið inn í þá menntun og það er ekkert skrýtið. En það segir í raun og veru að við þurfum að endurskoða reiknilíkön með reglulegu millibili. Það er alveg klárt mál að slík mannanna verk eru eins og önnur að þau eru ekki fullkomin og það hljóta að koma fram gallar og kostir sem menn þurfa að skoða.

Frú forseti. Það er eins og oft þegar farið er að ræða um menntamálin þá flýgur tíminn frá okkur. Ég ætlaði aðeins að staldra við þessa flóknu umræðu sem ég vil gera athugasemd við að menn reyni ekki að einfalda of mikið. Það er fjárhagsstaða skólanna og hvernig þeir afla fjár. Ein leiðin sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi var að draga frá skólagjöldin það sem hinir skólarnir tækju til að ná jafnstöðu í þessu tilliti. Ég held að við lendum þá mjög fljótlega í ógöngum vegna þess að dæmið er ósköp skýrt og við getum haldið okkur við það varðandi Listaháskólann. Þó að það sé hægt að bæta því við sem upp á vantar frá ríkissjóði, ef menn ætla að jafna þetta, þá þarf að draga úr einhvers staðar annars staðar ef fjármagnið er ekki ótakmarkað.

Í svari sem hv. þm. Mörður Árnason fékk frá menntamálaráðherra yfir það hvernig lánasjóðurinn lánar til skólagjalda er mjög merkilegt yfirlit yfir skólagjöldin sem sýnir okkur að full þörf er á því að að skoða þetta í heild sinni. Ég er alveg viss um að mörgum hv. þingmönnum bregður þegar þeir sjá hvaða frumskógur þetta er. Það er engin lína í því, við höfum ekki rætt hvar skólagjöld eiga að vera og hvar ekki. Það er auðvitað hægt að hafa þá einföldu línu og segja: Þau eiga hvergi að vera, en það er einhver breyting sem tekur óratíma að koma í gang. Þess vegna er það ábyrgðarleysi ef við ræðum ekki um það fyrr en seinna og veltum því fyrir okkur hvaða leið er best að fara til að tryggja að það sé jafnrétti til náms og að skólar sitji við sama borð. Þetta eru tveir þættir sem eru alger lykilatriði.

Við í Samfylkingunni höfum, eins og hér hefur komið fram, samþykkt á landsfundi okkar ákveðna stefnu í þessum efnum og hún stendur. Þess vegna er þetta frumvarp eins og það er. Það segir ekki að við viljum ekki ræða um þetta og skoða hvaða leiðir séu bestar til að tryggja þessi tvö markmið sem ég nefndi áðan.

Ég tel ýmsa vankanta á því að draga frá eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi. Önnur leið sem nefnd hefur verið er að lána ekki til skólagjalda. Það held ég að sé leið sem er algerlega óraunhæf vegna þess að ekki viljum við mismuna fólki eftir efnahag, þ.e. að þeir sem ekki eru betur staddir geti þar af leiðandi ekki farið í skóla sem hefur skólagjöld. Sú leið gengur afar illa. Þá er þriðja leiðin eftir og hún er sú að aukið verði framlag til skólanna. Það er flókið mál. Eigum við að auka það eingöngu til opinberu háskólanna eða eigum við að auka það einnig til hinna skólanna? Eins og hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir benti á þá þarf að skoða samningana og rannsóknarpeningana líka, þannig að engin af þessum leiðum er að minni hyggju einföld. Það er alltaf einhver vandi og þess vegna er afar mikilvægt að yfir þetta sé farið og það væri ábyrgðarleysi af stjórnarflokkunum að gera það ekki. Það er verkefni stjórnarflokkanna að fara yfir þetta frá a til ö og reyna að komast að sem skynsamlegastri niðurstöðu. Ég trúi því að það sé í raun og veru vilji allra hv. þingmanna þótt svo ýmsir hv. þingmenn hafi þann sið að gefa sér yfirleitt fyrir fram hvaða leið er best án þess að fara yfir málið í heild sinni. Þeir lenda þá oft og tíðum í því að fá málið í bakið og þurfa að leiðrétta misskilning sem skapast hefur af orðum þeirra.

Frú forseti. Tími minn er á þrotum og ég verð því að láta staðar numið þó að ýmislegt hafi verið ósagt. Verður það þá að bíða betri tíma.