135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:23]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því að hv. þm. Einar Már Sigurðarson lagði áherslu á að fara yrði yfir það hvernig laga ætti samkeppnisstöðu skólanna en tryggja jafnframt jafnrétti til náms, sem hann leggur áherslu á í máli sínu. Ég er sammála honum um að það sé mikilvægt.

En ég hlýt að spyrja hann: Á sama tíma og hann opnar á það sem hann kallar fordómalausa umræðu um skólagjöld í háskólunum, eru í huga jafnaðarmannsins Einars Más Sigurðarsonar einhverjar líkur á því að það muni auka jöfnuð og jafnrétti að láta menn borga hærri skólagjöld? Eru einhverjar líkur á að upptaka skólagjalda, það að fólk eigi að borga meira, muni auka jafnrétti til náms?