135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:30]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni að það sé mikilvægt að ræða þessi mál, háskólana, á fordómalausan hátt. Það má gera það varðandi alla þætti þessa máls. Markmið umræðunnar hlýtur að vera það að styrkja og efla háskólasamfélagið, starfið í háskólum landsins til hagsbóta fyrir nemendur, kennara, starfslið skóla og samfélagið allt. Manni hefur oft fundist þegar verið er að ræða um málefni skólanna og sérstaklega háskólastigsins að þá hafi menn kannski fest sig í umræðu um skólagjöld eða einhverja tiltekna einstaka þætti þeirra mála. Það er miður, sérstaklega í umræðu um þetta ágæta frumvarp, frumvarp til laga um opinbera háskóla, sem tekur yfir háskólana í heild sinni og starfsemi þeirra. Í frumvarpinu er ekki mælt fyrir um gjaldtöku opinberra háskóla og þess vegna furða ég mig svolítið á því að umræðan eins og hún hefur þróast hér snýst fyrst og fremst um skólagjöld og fjármál háskólanna en kannski síður um efnisinnihald frumvarpsins sem er mjög merkilegt. Ég ætla því að geyma mér umfjöllun um fjármálin og huga að öðrum þáttum málsins í ræðu minni.

Eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi eru hér fjölmörg álitaefni undir. Við höfum tekið eftir því í opinberri umræðu um þessi mál frá því að frumvarpið var lagt fram að ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa spurt spurninga varðandi einstök efnisatriði eins og um skipan háskólaráðs og stjórnskipulag hinna opinberu háskóla sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það eru atriði sem við þurfum að ræða í þessari umræðu og síðan í hv. menntamálanefnd þegar málið kemur til skoðunar þar. Ég hyggst víkja aðeins að því á eftir í ræðu minni.

Ég legg áherslu á það sem kom fram í máli hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar að þetta frumvarp er gríðarlega mikilvægt mál fyrir opinberu háskólana. Maður hefur orðið var við mikinn þrýsting frá háskólunum og ekki síst frá Háskóla Íslands um að frumvarpið verði að lögum fyrir sumarið. Sá þrýstingur helgast auðvitað af því að ekki er langt síðan að Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinuðust og skólarnir hafa í tengslum við þá ákvörðun unnið að skipulagsbreytingum á hinum sameinaða skóla sem þetta frumvarp byggir á og segja má að frumvarpið byggi á þeim hugmyndum sem fram hafa komið frá yfirstjórnum skólanna beggja. Þess vegna er afar mikilvægt að við ræðum um þá hluti fyrst og fremst með hliðsjón af hagsmunum skólanna af því að málið fari í gegn og það fari efnislega í gegn á þann hátt að það þjóni sem mest hagsmunum þeirra skóla sem undir frumvarpið falla.

Síðan eru mörg tækniatriði sem líta má til. Ég tók eftir því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi í ræðu sinni að það stangaðist á við málkennd hennar að rætt væri um skóla í því sambandi að einstakar deildir Háskóla Íslands eins og lagadeild og viðskipta- og hagfræðideild fengju yfirskriftina skólar. Við umfjöllun í nefndinni munum við taka þetta til skoðunar og heyra hvað skólarnir sjálfir hafa um slík atriði að segja. Það skiptir auðvitað mestu máli hvað háskólarnir sjálfir vilja í þessum efnum, hvað þeir vilja kalla einstakar deildir sínar. Ég vil kannski varpa því fram í þessari umræðu að orðið skóli á hverjum sjálfstæðum skóla innan háskólans er ekkert einsdæmi. Við höfum fyrirmyndir utan úr heimi eins og t.d. í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Ég veit ekki betur en að lagadeildin þar heiti Harvard Law School þó að hún sé hluti af Harvard-háskóla. Það sama má segja um John F. Kennedy School of Government eða Harvard Business School. Allar þessar deildir sem við höfum kallað á Íslandi lagadeild, viðskipta- og hagfræðideild, félagsvísindadeild o.s.frv. eru sambærilegar einingar við þessar þó að þær heiti skólar. Þetta eru atriði sem við munum taka til skoðunar þegar þar að kemur.

Ég vildi aðeins víkja að háskólaráðunum af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og fleiri sem um frumvarpið hafa fjallað hafa hefnt háskólaráðið eins og því er komið fyrir í frumvarpinu og skipan þess. Í 5. gr. frumvarpsins segir að stjórn háskólans sé falin háskólaráði og rektor og það sé háskólaráð sem marki heildarstefnu í kennslu og rannsóknum og móti skipulag háskólans o.s.frv. Með öðrum orðum að háskólaráð fari ásamt rektor með æðsta vald í málefnum háskólans og því er lýst ákaflega skilmerkilega í 5. gr. Síðan er kveðið á um að rektor háskóla sitji í háskólaráði og sé formaður þess og jafnframt eigi þar sex fulltrúar sæti. Þar fyrir utan eru svo ákvæði í frumvarpinu um háskólafund sem sé samstarfsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fari umræða um þróun og eflingu háskólans.

Það er alveg hárrétt sem fram kemur í frumvarpinu og hæstv. menntamálaráðherra nefndi að í þessu fyrirkomulagi felst ákveðin breyting frá því fyrirkomulagi sem nú er. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum hvort það fyrirkomulag sé gott eða slæmt. Ég sat sjálfur í háskólaráði Háskóla Íslands um tveggja ára skeið, það var áður en ákveðnar breytingar voru gerðar á því, og ég verð að taka fram að það fyrirkomulag sem var á stjórnskipun háskólans þá var kannski ekki endilega það besta sem hægt er að hugsa sér. Við munum auðvitað skoða þessi atriði við meðferð málsins í nefndinni.

Ég vildi nefna það í þessari umræðu að það er allur gangur á því hvernig skipan háskólaráða og yfirstjórna eða stjórnskipulags skóla er háttað, bæði hérlendis og erlendis. Ég tók mig til vegna þessarar umræðu og fór inn á heimasíður þriggja háskóla til að fara aðeins yfir það hvernig háskólaráð í þremur háskólum á Íslandi eru skipuð.

Ef við víkjum fyrst að Háskólanum á Akureyri þá fer háskólaráð fer með æðsta ákvörðunarvald innan háskólans, sinnir yfirumsjón málefna er varða háskólann almennt og markar honum heildarstefnu. Háskólaráð stuðlar að, skipuleggur og hefur umsjón með samvinnu deilda og samskiptum við aðila utan skólans, þar með talið samstarf við aðra skóla og rannsóknastofnanir. Háskólaráð hefur úrskurðarvald í málefnum háskólans eftir því sem lög mæla fyrir um og nánar er kveðið á um í reglugerð. Í háskólaráði Háskólans á Akureyri sitja fimm fulltrúar, þar af einn nemandi — af því að athugasemdir hafa komið frá nemendum við skipan háskólaráðs í þessu frumvarpi — og síðan eru fjórir fulltrúar til vara. Innan stjórnskipulags Háskólans á Akureyri starfar svo gæðaráð og í því eiga sæti rektor, allir deildarforsetar, framkvæmdastjóri, gæðastjóri, einn fulltrúi starfsmanna og annar fulltrúi nemenda. Gæðaráðið er má segja háskólaráðinu til ráðgjafar. Loks er ein stjórn í viðbót hjá Háskólanum á Akureyri sem ástæða er til að vekja athygli á og það er framkvæmdastjórn. Framkvæmdastjórn sér um samræmingu á daglegum rekstri skólans. Þar eiga sæti sex fulltrúar og enginn þeirra er nemandi. Nemendur eiga því fulltrúa í háskólaráði og gæðaráði en ekki í framkvæmdastjórn.

Í Háskólanum á Bifröst er málum öðruvísu fyrir komið. Háskólaráðið þar ákvarðar sameiginlega stefnumörkun háskólans á sviði kennslu, kennslufræði og rannsókna. Ráðið er samráðsvettvangur um starfshætti, samskipti og gæði í starfi háskólans ásamt því að vera umræðu- og ákvarðanatökuvettvangur um öll önnur málefni háskólasamfélagsins. Í ráðinu sitja 15 fulltrúar sem fara með atkvæðisrétt auk þriggja fulltrúa sem ekki eru með atkvæðisrétt í háskólaráði. Af þessum 15 eru fulltrúar kennara í öllum deildum og fulltrúar nemenda allra deilda ásamt forsetum deildanna, rektor, aðstoðarrektor og fleiri aðilar. Athyglisvert er að til hliðar við háskólaráðið sjálft er skipuð háskólastjórn og sú stjórn fer með yfirumsjón og eftirlit með öllum málefnum, eignum og rekstri skólans í samráði við rektor. Nefndin ræður rektor til starfa, skipar dómnefndir vegna rektors- og kennararáðninga, afgreiðir rekstraráætlun og ársreikning skólans og heldur utan um hinn daglega rekstur stofnunarinnar. Í háskólastjórninni sitja fimm aðilar. Þar af eru tveir frá Samtökum atvinnulífinu, einn frá menntamálaráðherra, einn frá Hollvinasamtökum Bifrastar og einn fulltrúi tilnefndur af háskólaráði. Enginn fulltrúi er frá stúdentum.

Lítum loks á hvernig málum er fyrir komið í Háskólanum í Reykjavík. Í háskólaráði eiga sæti átta fastafulltrúar og tveir varamenn sem skipaðir eru af eigendum skólans og eru fulltrúar íslensks atvinnulífs. Þetta eru fyrst og fremst fulltrúar sem koma utan frá en ekki úr skólanum og annast fyrst og fremst daglegan rekstur og stefnumörkun Háskólans í Reykjavík. Til hliðar við háskólaráð Háskólans í Reykjavík er svo ráðgjafaráð sem starfar með háskólaráði og stjórnendum skólans að mótun framtíðarstefnu og aðgerðaáætlana. Í ráðinu eru fræðimenn og stjórnendur frá sjö erlendum háskólum.

Þetta yfirlit um fyrirkomulag og stjórnskipun Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík sýnir fram á að skipan háskólaráða á Íslandi og aðkoma nemenda að þeim er með ýmsu móti. Ég ætla ekki að lýsa því yfir að eitt fyrirkomulag sé betra en annað en ég geri ráð fyrir að skipan háskólaráða hljóti að miðast af því hlutverki sem ráðinu á hverjum stað er ætlað að sinna.

Af því að vikið hefur verið að því að nemendur missi einn fulltrúa í háskólaráði frá því sem nú er þá hef ég skilið stefnumörkun ráðherrans og frumvarpshöfunda á þann veg að með því að endurskipuleggja stjórnskipulag Háskóla Íslands og opinberu háskólanna á þann hátt sem frumvarpið gerir ráð fyrir sé þetta hugsað þannig að Háskóli Íslands verði stjórnsýsluleg regnhlíf yfir hina sjálfstæðu skóla og að innan hvers skóla komi nemendur frekar að framtíðarstefnumörkun, faglegum vinnubrögðum og öðru sem skiptir þá mestu máli í skólastarfinu. Menn geta auðvitað haft sína skoðun á því hvort rétt er að fara þá leið eða ekki en hún er alla vega málefnaleg og til umræðu hér og ég lít svo á að við í mennamálanefnd munum taka þessi atriði og önnur til gagngerrar skoðunar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri. Mér fannst hins vegar ástæða til að varpa ljósi á að fyrirkomulag þessara mála er með ýmsum hætti í háskólum á Íslandi og ég þykist vita að slíkt eigi einnig við um hinn erlenda háskóla sem við miðum okkur við.