135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[12:57]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við skipulag og dagskrá þessa fundar. Hér ræðum við 4. dagskrármálið. Tveimur málum hæstv. menntamálaráðherra var ýtt út af dagskrá og mér býður í grun að það eigi að slíta þessa umræðu um mál opinberra háskóla í tvennt þar til ráðherra hefur lokið öðrum störfum utan húss.

Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort nú eigi að taka fyrir, að loknu hádegisverðarhléi, 6. mál á dagskrá, Póst- og fjarskiptastofnun.

Það var gerð athugasemd við það í morgun að vitað væri að aðalfundur Ríkisútvarpsins ohf. yrði í dag og að búist væri við því að hæstv. menntamálaráðherra þyrfti að sitja hann. Það var kvartað undan því að þingmenn hefðu ekki tök á því eins og hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra getur síðan farið úr umræðunni og skilið hana eftir í lausu lofti.

Ég geri alvarlega athugasemd við þessa skipan mála, hæstv. forseti.