135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

tilhögun þingfundar.

[13:33]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Mér hefði fundist eðlilegt að fyrir fram undirbúinni dagskrá hefði verið fylgt. Það var gerð ákveðin samþykkt í upphafi þingfundar þar sem var talað um að dagskráin yrði tæmd og því er eðlilegt að fyrir fram boðaðri dagskrá verði fylgt, þingmenn hafa miðað við það, hvernig þeir ætla að tala og taka þátt í ákveðnum málum. Því hefur verið breytt og nú er enn verið að breyta þegar komið er fram á miðjan þingfundardag og það er gjörsamlega ómögulegt að þingmenn geti ekki skipulagt vinnu sína með ákveðnum og eðlilegum hætti.

Þess ber að geta að nú klukkan tvö er aðalfundur hins opinbera hlutafélags Ríkisútvarpsins þar sem hinn almenni borgari er neyddur til að greiða afnotagjöld hvort sem honum líkar betur eða verr og margir þingmenn hefðu haft löngun til þess að mæta á þann fund en þar sem dagskránni er breytt að geðþóttaákvörðum hverju sinni þá er mönnum gert það ómögulegt, þeir verða að sæta því og bíða hér. Það verður að gera kröfu til þess, virðulegi forseti, að fá upplýsingar um það (Gripið fram í.) hvernig á dagskráin að vera þangað til yfir lýkur, því það á að ljúka henni, og ég spyr því: Í hvaða röð eiga dagskrárliðir að vera?