135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

breytt fyrirkomulag á skráningu og þinglýsingu skipa.

521. mál
[13:39]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna breytts fyrirkomulags á skráningu og þinglýsingu skipa.

Frumvarpið er afrakstur samvinnu samgönguráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, Fasteignamats ríkisins og Siglingastofnunar Íslands.

Frumvarp þetta er að nokkru byggt á sömu sjónarmiðum og fram komu í frumvarpi um sama efni er lagt var fram á Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006, en varð þá ekki að lögum. Með frumvarpi þessu er þó ekki lagt til líkt og þá að færsla þinglýsingarbóka skipa og báta og framkvæmd nauðungarsölu verði hjá einu sýslumannsembætti.

Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja samræmi milli aðalskipaskrár og þinglýstra heimilda um skip með því að taka upp samræmdan þinglýsingargagnagrunn fyrir skip.

Með því að taka upp samræmdan gagnagrunn fyrir skráningu og þinglýsingu skipa er stuðlað að auknu hagræði og skilvirkni við þinglýsingar skipa, þar sem upplýsingum um þinglýsingar skráningarskyldra skipa verður safnað saman miðlægt á einum stað. Þinglýsingarbækur sýslumanna verða beintengdar aðalskipaskrá Siglingastofnunar í þinglýsingakerfi sem rekið er af Fasteignamati ríkisins í umboði dómsmálaráðuneytisins.

Skráningu og þinglýsingu skipa er þannig háttað í dag að þinglýsingarbækur eru handfærðar hjá u.þ.b. helmingi sýslumanna á landinu. Önnur embætti hafa haldið þinglýsingarbækur skipa í eldra tölvukerfi en auk þess að vera komið til ára sinna var mikið óhagræði fyrir sýslumenn falið í því að þinglýsa í mismunandi þinglýsingarkerfum.

Með því að taka upp samræmdan þinglýsingargagnagrunn fyrir skip verða þinglýst skjöl aðgengileg á tölvutæku formi í skipabók þinglýsingarstjóra. Markmiðið er sem fyrr segir að tryggja samræmi milli aðalskipaskrár og þinglýstra heimilda um skip. Þar sem skipabók þinglýsingarstjóra verður beintengd aðalskipaskrá Siglingastofnunar Íslands verður framkvæmd þinglýsinga einfölduð þar sem ekki verður lengur nauðsynlegt að senda tilkynningar um breytta skráningu frá Siglingastofnun til sýslumannsembætta og tilkynningar frá sýslumönnum til Siglingastofnunar. Auk þess verða þinglýst skjöl ekki lengur send á milli sýslumannsembætta þegar skip eru færð á milli umdæma, heldur verða öll skjöl skönnuð og aðgengileg á rafrænu formi.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að breytt verði viðmiðun á mælingu skipa úr brúttólestum í brúttótonn. Mismunandi reglur gilda um stofnun og rétt eignarhafta á skrásettum skipum eftir því hvort þau eru fimm rúmlestir eða stærri eða minni en fimm rúmlestir. Ekki er um að ræða neina efnisbreytingu á gildandi reglum og munu þær taka til svipaðs fjölda skipa og verið hefur. Helsta ástæða breyttrar viðmiðunar er einkum sú að mælieiningin rúmlestir er á undanhaldi með tilkomu nýrrar alþjóðasamþykktar um mælingu skipa.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.