135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

breytt fyrirkomulag á skráningu og þinglýsingu skipa.

521. mál
[13:49]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tjáð sig um frumvarpið sem hér er flutt enda held ég að það sé frumvarp sem er allt til bóta hvað þetta varðar.

Fyrst varðandi spurningu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um röksemdafærsluna fyrir þessu frumvarpi eða því sem lagt var fram fyrir einu ári síðan. Því get ég auðvitað ekki svarað vegna þess að ég vissi ekki hvað þá var á ferðinni en ég veit hins vegar hvað hér er um að ræða.

Aðeins varðandi brúttórúmlestir og brúttótonn þá erum við að færa þetta í þetta sama horf vegna breytinga á alþjóðasamþykktum. Ég held að sé bara hið besta mál og svara þá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni í leiðinni. Þetta á ekki að leiða til þess að hafnirnar noti breytinguna til að hækka gjaldskrá sína. Það er ekki hugsað þannig ... (Gripið fram í.) né til að lækka þær.

Varðandi þriðja þáttinn, gjaldtökuheimildir, sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fjallaði um, þá eru þær minni háttar, eins og segir í umsögn fjármálaráðuneytisins. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort mikill kostnaður fylgi því að setja þetta inn í rafræna kerfið. Það er auðvitað besta mál að setja þetta inn í Landskrá eins og hér er talað um að gera. Erum við ekki að stíga hér skref til einfaldara og betra Íslands? Þetta er hugsað þannig.

Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þeirra innlegg í þessa umræðu.