135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Póst- og fjarskiptastofnun.

522. mál
[14:07]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að taka upp sama atriði og hv. þm. Jón Magnússon gerði að umræðuefni í sambandi við þetta frumvarp, sem hæstv. samgönguráðherra hefur nú mælt fyrir, þ.e. varðandi úrskurðarnefndir.

Ég ætla samt að byrja á að fara yfir annað atriði í frumvarpinu, þ.e. meginmarkmið þess. Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að fleiri aðilum en fjarskiptafyrirtækjum og póstrekendur sé skylt er að láta Póst- og fjarskiptastofnun í té upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg. Þetta er gert í því skyn að efla eftirlitshlutverk á sviði póst- og fjarskiptamála sem ég held út af fyrir sig að sé ekki vanþörf á. Ég tek undir að það er áreiðanlega skynsamlegt að leggja það til.

Í greinargerð með frumvarpinu er reifað, undir athugasemdunum um 1. gr., hvaða lagaákvæði eru tiltekin. En hér er gert ráð fyrir því að m.a. einstaklingum verði gert skylt að láta Póst- og fjarskiptastofnun í té upplýsingar sem hún kann að kalla eftir og telur að varði eftirlitshlutverk sitt.

Ég hefði viljað heyra nánar um það frá hæstv. ráðherra í hvaða tilfellum einstaklingar geta beinlínis verið settir undir þetta lagaákvæði. Ég er alls ekki að leggjast gegn því að svo sé en mér finnst mikilvægt að það liggi fyrir í hvaða tilfellum það er. Og sömuleiðis þá hvort það hafi verið rætt við Persónuvernd því að auðvitað getur verið um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða. Mér finnst mikilvægt að fá það svolítið fram í þessa umræðu eða a.m.k. við frekari vinnslu málsins hvernig því víkur við.

Ég ætla sérstaklega að nefna úrskurðarnefndirnar. Ég heyrði að hv. þm. Jón Magnússon, sem hér talaði áðan, er áhugamaður um það viðfangsefni, ekki síst sem lögfræðingur. Hann hefur áhuga á að fjalla um úrskurðarnefndirnar. Þar er auðvitað stjórnsýslulegt viðfangsefni en í þessu frumvarpi, í þessum málaflokki, er enn ein úrskurðarnefndin á stjórnsýslustigi. Ég veit ekki hvað úrskurðarnefndirnar eru margar á vegum ríkisins. Ætli þær séu ekki svona 60, 70 talsins eða eitthvað þess háttar?

Eftir því sem mér virðist og eftir því sem ég hef kynnt mér — ég verð að viðurkenna að ég þekki starfsemi sumra býsna vel en annarra lítið sem ekkert — er svolítið misjafnt með hvaða hætti úrskurðarnefndir á stjórnsýslustigi eru skipaðar, hvaða umboð þær hafa og hvernig þær starfa. Mér finnst það alveg sérstakt athugunarefni hvernig við viljum skipa þessum málum þegar kemur að því að tryggja réttarstöðu einstaklinga og lögaðila sem telja sig þurfa að leita réttar síns vegna einhverra ákvarðana sem eru stjórnsýslulegs eðlis.

Það er talað um að mikilvægt sé að renna styrkari stoðum undir þá meginreglu íslenskrar stjórnskipunar að ráðherrar fari í reynd með æðstu yfirstjórn stjórnsýslunnar, hver á sínu sviði, og beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum í samræmi við 14. gr. stjórnarskrárinnar eins og hér segir í greinargerð, með leyfi forseta. Þá finnst mér eins og verið sé að segja: Ja, ábyrgðin er framkvæmdarvaldsins, ráðherrans og þess vegna verður hann að hafa um það að segja hvernig úrskurðarnefndin er skipuð. Auðvitað má þá spyrja: Eru þá ekki úrskurðarnefndirnar óþarfar? Er það ekki bara ráðherrann sem á að taka þessar stjórnsýslulegu ákvarðanir? Það var þannig einu sinni en síðan fundu menn upp á þessu, að setja úrskurðarnefndir á laggirnar í hinum og þessum málum og taka þannig þetta vald og ábyrgð frá ráðherrum og yfir í nefndir. Nú á að styrkja þessa meginreglu, að ráðherrann fari með æðstu yfirstjórn stjórnsýslunnar og beri á henni ábyrgð.

Þess vegna er m.a. lagt til, eins og ég hef skilið, að Hæstiréttur komi ekki lengur að því að skipa eða tilnefna fulltrúa í úrskurðarnefnd heldur séu allir fulltrúarnir skipaðir af ráðherra. Hv. þm. Jón Magnússon tekur undir þetta viðhorf og segir að þetta sé svona í áttina. Hann sér ekki hlutverk Hæstaréttar og telur að dómstólarnir eigi ekki að vera með hlutverk í þessu efni. Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um það. Það kann vel að vera að það sé eðlilegt og rétt viðhorf. En um leið segir í greinargerð á blaðsíðu 7 neðarlega, með leyfi forseta:

„Styttri skipunartími og fullkomin ábyrgð samgönguráðherra á skipun nefndarinnar ætti að skapa úrskurðarnefndinni strangara kostnaðarlegt aðhald en nú er raunin.“

Það er verið að búa til strangara aðhald með þessari nefnd, m.a. kostnaðarlega. Lögð er áhersla á meginhlutverkið, meginreglu stjórnsýslunnar, að ráðherra beri samkvæmt stjórnarskránni ábyrgð á stjórnarathöfnum. Þá hlýtur að vakna sú spurning, hvort úrskurðarnefndin er þá ekki orðin of háð ráðherranum til þess að geta tekið sjálfstæðar óháðar ákvarðanir. Það er að vísu lögð á það áhersla hér í greinargerðinni. Þar segir:

„Hin nýja úrskurðarnefnd verður þó algjörlega óháð ráðherra við faglegar úrlausnir mála eins og áður.“

Ég leyfi mér að velta því upp hvort það sé nú endilega þannig og sjálfgefið, þegar verið er að hnykkja á stjórnsýsluvaldi ráðherranna, að skerpa tök ráðherrans á skipan nefndarinnar. Lögð er áhersla á meira eða strangara aðhald kostnaðarlega á nefndina sem mér finnst fara aðeins í bága við hitt sem hér er sagt, að nefndin sé algjörlega óháð ráðherranum.

Ég velti þessu upp. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé löngu tímabært að skoða úrskurðarnefndir á stjórnsýslusviði almennt. Ég held að þær séu búnar að lifa sínu lífi og fara eigi í heildarskoðun á því hvort ekki sé skynsamlegra að fara aðrar leiðir en að hafa svona margar kærunefndir, úrskurðarnefndir, á hinum ýmsu sviðum, t.d. að setja á laggir sérstakan stjórnsýsludómstól sem tæki fyrir stjórnsýslukæru af þessum toga þannig að allar stjórnsýslukærur, óháð því á hvaða sviði þær eru, fari í sama farveg og fái sambærilega meðhöndlun og meðferð. Það er nú svona viðhorf sem ég hef áður reifað í umræðum á Alþingi fyrr í vetur, m.a. í umræðunni um frumvarp umhverfisráðherra til skipulagslaga og mannvirkjalaga. Ég tel að úrskurðarnefndirnar séu svolítið gengnar sér til húðar. Það sé minnsta kosti fullkomlega eðlilegt að fjalla um hvort þær séu rétt aðferð.

Síðan er annað ákvæði sem mér finnst svolítið skrýtið en í 2. gr. frumvarpsins, undir staflið d., um 3.–5. mgr. 13. gr. laganna Þar segir, með leyfi forseta:

„Taka skal gjald vegna málskots fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda til úrskurðarnefndar og málsmeðferðar fyrir nefndinni.“

Í greinargerð segir, með leyfi forseta, á blaðsíðu 7 neðst og áfram á blaðsíðu 8:

„Í nýrri 5. mgr. 13. gr. er í frumvarpinu kveðið á um málskotsgjöld og fjármögnun starfsemi hinnar nýju úrskurðarnefndar. Þar er kveðið á um heimild nefndarinnar til að taka gjald vegna málskots fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Gjaldið skuli miðast við kostnað vegna þóknunar nefndarmanna, reksturs málsins fyrir nefndinni, starfsaðstöðu, sérfræðiaðstoð og gagnaöflun. Gert er ráð fyrir að úrskurðarnefndin kveði á um fjárhæð gjalds í úrskurði sínum og að gjaldið verði greitt gegn afhendingu úrskurðar. … Tekið er fram að ekki er heimilt að gera notendum fjarskipta- og póstþjónustu eða Póst- og fjarskiptastofnun að greiða gjald samkvæmt ákvæðinu. Þá eru gjöld samkvæmt greininni aðfararhæf.“

Þetta vekur upp að ég tel ákveðnar prinsippspurningar, þ.e. hvort það sé eðlilegt að þegar einhver aðili í samfélaginu leitar réttar síns, hefur sem sagt ákveðnar leiðir til þess í lögum, í þessu tilfelli úrskurðarnefnd geti hann kært stjórnsýsluákvörðun til úrskurðarnefndar en fái ekki úrskurðinn nema að greiða kostnaðinn við vinnu nefndarinnar. Hann fær ekki úrskurðinn afhentan nema gegn greiðslu. Hvernig sæju menn slíkt fyrir sér, t.d. í dómskerfinu, að menn fengju ekki dóm nema að borga dómstólnum fyrir? Ég er hræddur um að það þætti ekki góð latína.

Eins og ég segi, mér finnst ekki koma fram í greinargerð röksemdin fyrir þessari hugsun. Það þarf að gera betur grein fyrir því sem að baki býr. Ég mun óska eftir því í vinnu samgöngunefndar að fá frekari rökstuðning fyrir þessari aðferðafræði. En, frú forseti, mér finnst þetta vægt til orða tekið umhugsunarefni, að menn þurfi að greiða fyrir úrskurð úrskurðarnefndar á stjórnsýslustigi. Réttilega er hér tekið fram að þetta gildir ekki um alla. Þetta gildir um suma. Þá vakna líka spurningar um hvort verið sé að mismuna þeim sem geta leitað réttar síns hjá úrskurðarnefndinni ef sumir aðilar geta þurft að greiða fyrir úrskurð en aðrir ekki.

Þetta eru nokkur atriði sem mér finnst ástæða til að skoða sérstaklega við meðferð þessa máls. Ég geri ekki kröfu um að hæstv. samgönguráðherra hafi svör við öllum vangaveltum mínum á reiðum höndum í þessari umræðu. En ég vildi vekja máls á þessu vegna þess að þetta fannst mér tilefni til að vekja athygli á. Ég mundi vilja, við meðferð málsins í nefnd, fá frekari rökstuðning fyrir þessum atriðum. Þess vegna er rétt að nefna þau við 1. umr., m.a. til að þeir sem hafa unnið þetta frumvarp af hálfu ráðuneytisins geti búið sig undir spurningar, vangaveltur og hugsanlegar óskir um frekari upplýsingar sem koma munu fram í vinnu nefndarinnar þegar málið kemur þar til meðhöndlunar.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara sérstaklega yfir efni frumvarpsins nema ég ítreka það sem ég sagði strax í upphafi, að ég held að fullt tilefni sé til að fara í þann leiðangur sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir með markmiði sínu, að efla og styrkja eftirlitshlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar á sviði fjarskiptamála og póstmála. Ég held að mörg dæmi kalli á það og nefni bara í framhjáhlaupi t.d. póstþjónustuna. Borist hafa upplýsingar um það að undanförnu að skerða eigi verulega póstþjónustu, m.a. á landsbyggðinni. Vestfirðir hafa verið nefndir í því sambandi. Það er örugglega ekki vanþörf á að styrkja þetta hlutverk. Ég tek undir það. En hér eru engu að síður nokkrar efnislegar athugasemdir, vangaveltur sem ég vil leggja til við 1. umr.