135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Póst- og fjarskiptastofnun.

522. mál
[14:21]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim þingmönnum tveimur sem tjáðu sig um þetta mál, annars vegar þeim hv. þm. Jóni Magnússyni, sem fagnar frumvarpinu og breytingunum sem gerðar eru, tíminn er kominn. Jafnframt þakka ég hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir þær efnislegu athugasemdir sem hann setur hér fram. Eins og hann gat um, hann starfar sjálfur í hv. samgöngunefnd, fara þau betur yfir þetta þar. Hann nefndi 1. gr., þar er náttúrlega bara verið að setja þetta inn þannig að einstaklingar og lögaðilum öðrum en fjarskiptafyrirtækjunum sé skylt að láta Póst- og fjarskiptastofnun í té upplýsingar og gögn sem stofnunin metur nauðsynleg í tengslum við eftirlit og athuganir sem tengjast málum sem um er fjallað í ákvæðum laga um fjarskipti og póstþjónustu, eins og segir í athugasemdum við 1. gr.

Við vitum að ýmsir aðilar flytja inn alls konar talstöðvar o.fl. sem getur truflað og annað slíkt. Það gerist líka stundum, eins og hv. þingmaður fjallaði hér um, að menn heyra ýmislegt sem þeir eiga kannski ekki að heyra með alls konar tækjum og þá er hægt að sækja um heimild til að láta vita af því.

Aðeins aftur að úrskurðarnefndinni sem mér fannst hv. þingmaður ræða mest um. Mér finnst eðlilegt að setja þetta svona fram. Ég held að það sé eðlilegt að þeim sem skjóta máli til úrskurðarnefndar beri þá að greiða fyrir það. Þá er það sett þannig fram að þegar stór aðili er á móti litlum aðila borgar sá stóri meira, það er ákveðið hlutfall — mér finnst eðlilegt að setja þetta þannig inn þannig að menn skjóti ekki málum til úrskurðarnefndar til þess eins að fá prufu án þess að það kosti neitt. Þarna kemur þá kostnaðarvitund inn í þetta og ég held að það sé bara til bóta. Hvort sem er í þessu eða einhverju öðru eiga menn ekki að skjóta málum til úrskurðarnefnda til að sjá hvað kemur út úr því. Þegar þeir skjóta málinu til nefndarinnar og fá þá í leiðinni að þeir þurfi að borga fyrir úrskurðinn og í réttu hlutfalli verður allt einfaldara.

Að öðru leyti vil ég, hæstv. forseti, þakka fyrir ágæta umræðu um þetta mál.