135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Póst- og fjarskiptastofnun.

522. mál
[14:24]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil bregðast við svörum hæstv. ráðherra og annarri ræðu hans, og þakka fyrir hana. Ég vil velta því betur upp í sambandi við úrskurðarnefndina og gjaldið — ég er ekki endilega andvígur því í útgangspunkti, ég ætla ekki að taka af skarið með það. Það má líka benda á að þegar dómstólar fella dóma dæma þeir oft aðila máls til þess að greiða t.d. málskostnað en þeir greiða að vísu ekki dómstólnum í þeim tilvikum.

Þetta er ákveðið prinsippmál, finnst mér, spurning, og á ekki einungis sérstaklega við um úrskurðarnefndina á sviði póst- og fjarskiptamála heldur um úrskurðarnefndir almennt. Er eðlilegt að við heimilum í lögum að úrskurðarnefndin geti tekið gjald af þeim sem sækja rétt sinn til viðkomandi úrskurðarnefndar? Þetta snýst ekki um það hvort stór aðili eigi að borga mikið og lítill aðili lítið, þetta er bara ákveðin prinsippspurning og á ekki bara við um úrskurðarnefnd á sviði póst- og fjarskiptamála.

Finnst okkur eðlilegt að innleitt sé í lög að úrskurðarnefndir taki gjald fyrir úrskurði sína? Ef svarið við því er já í þessu frumvarpi hlýtur sú spurning líka að vakna þegar við fjöllum um annað mál sem er til meðferðar í þinginu, sem eru skipulagslögin. Þar starfar úrskurðarnefnd á sviði skipulags- og byggingarmála, þar geta einstaklingar leitað réttar síns ef þeir telja á sér brotið í skipulagi, geta sem sagt skotið skipulagsákvörðunum sveitarfélaga til úrskurðarnefndar. Finnst okkur eðlilegt að hlutaðeigandi einstaklingur sem vill leita réttar síns geti átt á hættu að fá reikning fyrir vinnu nefndarinnar? Ég efast um að okkur finnist það eðlilegt, við erum að hér að búa til ákveðin tæki fyrir borgarana, einstaklinga og lögaðila, til þess að leita réttar síns. Við viljum öll að réttarríkið verði í hávegum haft og menn eigi rétt á því að leita réttar síns ef þeir telja á sér brotið án þess að það sé háð fjárhag manna.

Mér finnst eðlilegt að við förum betur yfir röksemdirnar á bak við þetta í nefndinni. Ég er ekki að gera stórmál úr þessu, mér finnst þetta prinsippmál gagnvart úrskurðarnefndum almennt. Er þetta leið sem við viljum fara og viljum við þá láta það gilda á fleiri sviðum en því sem hér er til umfjöllunar? Ég get ítrekað það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að ég tel að úrskurðarnefndir séu almennt komnar á tíma og fara eigi fram heildstæð umræða um það innan stjórnkerfisins, og þess vegna hér á Alþingi, hvort menn vilji fara aðrar leiðir en nú er gert með öllum þessum úrskurðarnefndum sem ég held að séu 60 eða 70 í kerfinu.