135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:30]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fyrirgefanlegt þótt menn séu afturhaldssamir í sumum hlutum en í samgöngum er það ófyrirgefanlegt. Ef vel ætti að vera, og rétt væri að verki staðið, væri Vegagerðin nú að skipuleggja 2+2 akreinar, þ.e. fjórar akreinar, á leiðinni Selfoss/Reykjavík, bara ef horft er til næstu 15–20 ára — nákvæmlega sama og menn eru að tala um um Sundabrautina eða Sundagöng sem væntanlega verða að veruleika. Þannig verða menn að hugsa þetta. Aðferðin 2+1 er gjörsamlega úrelt og vonlaus framkvæmd miðað við þann þunga sem er sívaxandi á leiðinni austur fyrir fjall.

Það er út úr kortinu, og kemur manni mjög á óvart, að hv. þingmanni skuli detta í hug að fara þessa leið þó að hægt sé að sýna fram á að ekki þurfi margbreiðar traðir á rollugötunum — þetta er ekki slíkt. Um er að ræða mjög þunga og vaxandi umferð og það er lágmark að ræða um tvöföldun með tilliti til umferðarþungans, með tilliti til aðstæðna — veðurs, hríðardaga, þokudaga — því að heiðin sjálf er ótrúlega erfið þótt ekki sé hún fjarri þéttbýli.

Menn verða að horfast í augu við þetta út frá því sjónarmiði og vinna samkvæmt því. Sem betur fer eru engin áform um að draga úr í þessum efnum og vonandi verður haldið fast og ákveðið við tvöföldun Suðurlandsvegar — væntanlega og vonandi verður fyrsti áfangi þess verks boðinn út í árslok.