135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:36]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilegt að þingmaðurinn Árni Johnsen telur sjálfan sig nútímamann en væntanlega að undirritaður sé einhver fornmaður í þessu samhengi.

Ég vil undirstrika það sem ég sagði, og ef þingmaðurinn hefði hlustað þá hefði hann heyrt að ég sagði það í ræðu minni — ég er ekki að tala um þá útfærslu á 2+1 sem er í Svínahrauninu. Ég tel hana óbrúklega og tek undir það með honum. Ég hef sjálfur víða ekið á 2+1 vegum um Evrópu og þeir eru ekki svona klénir eins og vegurinn í Svínahrauni. Þeir eru almennilega útfærðir — góðar vegaxlir, vel útfærð gatnamót, gott aðgengi fyrir bíla eins og sjúkrabíla eða slökkviliðsbíla og annað slíkt sem sinna björgunarstörfum. Ég er ekkert að tala um þessa útfærslu, ég tek undir það að hún er óbrúkleg. En ég er sannfærður um að hægt hefði verið að fara þessa leið í fyrsta áfanga og ná þá fleiri kílómetrum ef svo má segja — það hefði verið hægt að fara upp á Vesturlandið sem ég tel að hafi orðið út undan í þessu að ósekju.

Ég tek eftir því að um leið og ég er að tala um það að ég vilji auka umferðaröryggi alls staðar út frá höfuðborginni — á Reykjanesbrautinni, á Suðurlandsvegi og vestur um land líka á Vesturlandsvegi — hefur þingmaðurinn Árni Johnsen engan áhuga á því að tala um umferðaröryggi þegar við erum að ræða um leiðina hér vestur á land og upp í Borgarnes því að hann kemur hvergi inn á það í sínu máli. (ÁJ: Sjálfsagt að gera það.)