135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:38]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Umræðan um Suðurlandsveg er náttúrlega sorgleg að því leyti að menn telja að nóg hafi verið að vera með hann 2+1, sem er auðvitað úrelt viðhorf. Við tókum þennan veg ekki í notkun fyrr en fyrir þremur árum og hann er eiginlega minnismerki um það hvernig vegagerð á ekki að fara fram. Það er sorglegt að við skulum hafa farið þá leið sem farin var. Hann er hreint til skammar. Það þarf að tvöfalda Suðurlandsveg og ekki er nóg að tala um Suðurlandsveg austur á Selfoss því að verði farið í hafnarframkvæmdir í Landeyjarhöfn eða á Bakka þarf raunverulega að tvöfalda veginn alla leið austur í Bakkafjöru. Það er að mínu mati nauðsynlegt.

Af því að verið er að tala um vegaframkvæmdir og samgöngumál tekur maður eftir því að ekki er gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun eða peningum í Reykjanesbrautina, sem er verið að tvöfalda — og væntanlega munu þau útboð sem verið er að gera í hana verða miklu hærri, og í raun allar vegaframkvæmdir og samgöngubætur eftir gengisfellingu sem hefur orðið frá áramótum.

Maður tekur líka eftir því að ekkert fjármagn er í svokallaðan Ósabotnaveg sem unnið hefur verið að síðastliðin þrjú ár og er nú klár til þess að leggja á hann bundið slitlag. En engir peningar eru ætlaðir í það. Það er furðulegt að stoppa framkvæmdir sem unnið hefur verið að af því að einhverja peninga vantar upp á.

Það vantar líka veg í Þorlákshöfn frá vatnsverksmiðjunni sem verið er að byggja þar og niður að höfn. Það má tala um ferju frá Vestmannaeyjum, eftir því sem mér skilst var verið að opna tilboð í nýja ferju sem á að sigla frá Vestmannaeyjum í Bakkafjöru. Það var verið að opna tilboð í dag og ég vænti þess að hæstv. samgönguráðherra, Kristján Möller, segi okkur frá því á eftir. Þar er lægsta tilboð 50% hærra en reiknað var með í kostnaðaráætlun.

Ég ætla ekki að tala aftur um það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson talaði um um Suðurlandsveginn. Það er ekki sniðugt að menn skuli fara í hrepparíg í samgöngumálum. Auðvitað styðjum við þingmenn Suðurkjördæmis vegabætur í kringum Reykjavík, það er partur af landi okkar. Allir ferðast meira og minna til og frá Reykjavík og ekkert óeðlilegt að allir vilji hafa sem mestar lagfæringar í samgöngukerfi okkar, hvort sem það snýr að Sundabraut eða Sundagöngum eða öðru þess háttar. En kostnaðarauki er augljós núna bara með tilliti til þess hvað hefur verið að gerast í samfélaginu.

Ég get ekki orða bundist um ágætan félaga, hv. þm. Árna Johnsen, sem fer að tala um að Vegagerðin þvingi einhvern. Það er hálfsorglegt þegar alþingismenn kenna embættismönnum og starfsmönnum, sem eru undir ráðuneytum, um ófarir í svona málum. Mér finnst það ekki við hæfi.