135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:54]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Johnsen gerir að umtalsefni þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og hugmyndir um uppbyggingu Kjalvegar. Varðandi þann dagskrárlið sem við ræðum nú sem er viðauki við samgönguáætlun er m.a. talað þar um að hefja skuli framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng og það er augljóst að arðsemi þeirrar framkvæmdar mundi aukast til muna ef hálendisvegur kæmi yfir Kjöl. Það er ekki nokkur spurning. Og í þeim arðsemisútreikningum þyrfti að liggja fyrir hvort Kjalvegur verði byggður og hvaða áhrif hann hefði á þá framkvæmd. Mér er það alveg ljóst, ég hef séð útreikninga í þá átt að arðsemin eykst gríðarlega þannig að ég lít svo á að þessar tvær framkvæmdir séu nátengdar. Auk þess er það í forgangi hjá Evrópuþjóðum, m.a. í Skandinavíu, að stytta vegalengdir. Öll uppbygging samgöngukerfis til lengri tíma byggir á því að stytta vegalengdir. Stytting vegalengda sparar útblástur, sparar tíma, minnkar álag á það vegakerfi sem við höfum nú og það eykur umferðaröryggi. Öll rök hníga að því að sú framkvæmd sem er uppbygging Kjalvegar skilar sér inn í samfélagið og gríðarlega mikið til þeirra svæða sem um er að ræða, þ.e. Suðurland og Norðurland.