135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:57]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef varla orðið tölu á því hversu oft hefur verið breytt út af dagskrá þessa fundar eins og hún var lögð fram í morgun. Veit ég vel að forseti hefur vald til að skipa röð mála á dagskrá eins og henta þykir hverju sinni en mér sýnist ljóst að það þyki henta að hafa einn ráðherra inni í einu og þegar hæstv. ráðherrum þóknast að fara eitthvað annað eða sinna öðrum skyldum en þeim að vera hér og mæla fyrir málum samkvæmt boðaðri dagskrá þá er dagskránni einfaldlega breytt. Þannig er að við höfum farið í 1. mál og síðan 4. og þá er stopp af því að ráðherra þurfti að fara. Síðan í 5., 6., 7. og 8. mál og þá er stopp af því að hæstv. ráðherra þurfti að fara. Nú er boðað að við eigum að fara í 11. mál vegna þess að hæstv. félagsmálaráðherra er kominn hingað til fundar. Ég verð að segja, herra forseti, að hennar tími er ekki kominn á þessari dagskrá. (Forseti hringir.) Við eigum eftir nokkra dagskrárliði áður en að því kemur.