135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[15:58]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur varðandi það sem hún sagði um fundarstjórn forseta. Í 8. gr. þingskapa segir að forseti stjórni umræðum og sjái um að allt fari fram með góðri reglu. En hér er ekki farið eftir neinni reglu, hér er allt í bullandi óreglu og það er ekki þannig sem þinghald á að fara fram á löggjafarþingi Íslendinga.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að miðað við það að byrjað var á því í morgun að taka ákvörðun um að þinghaldið skyldi standa þangað til dagskráin væri tæmd, þá vil ég spyrja hæstv. forseta hvernig hann sjái fyrir sér að þinghaldið gangi áfram. Það er alveg rétt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á áðan að flakkað er á milli dagskrárliða aftur á bak og áfram og þingmenn hafa ekkert með það að gera. Hvernig sér forseti fyrir sér að dagskráin gangi áfram og hvernig henni muni ljúka? Hvernig er röð dagskrárliða hér eftir?