135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[16:55]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að undirstrika mikilvægi þess að þegar fjallað eru um greiningar, hvort sem það er um ADHD eða greiningar almennt, að ekki sé litið á það sem vandamál heldur sem viðfangsefni. Það er markmið okkar í sambandi við ný grunnskólalög að fjalla um skóla án aðgreiningar og það er einmitt afar mikilvægt að við hættum að líta á börn og unglinga með einhvers konar frávik sem vandamál heldur bara sem eðlileg og sjálfsögð viðfangsefni. Þess vegna er mjög mikilvægt að úrræðin sem við beitum felist í að þjálfa starfsfólk innan skólanna, kennarana, og að við hættum að sætta okkur alltaf við það að menn biðji um að börn séu fjarlægð úr bekkjum eða að leitað sé annarra úrræða, að farið sé með þau eitthvert annað, heldur verði starfsfólk þjálfað til þess að vinna með þau sem hluta af hópnum. Því það er eins með þessi börn og mörg önnur, hvort sem um er að ræða fötlun, þroskafrávik eða ofvirkni eins og hér er verið að ræða um, að ef okkur tekst ekki að gera þetta að sameiginlegu viðfangsefni skólans og fjölskyldnanna í heild náum við engum árangri.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann muni ekki leita eftir samstarfi við hæstv. menntamálaráðherra í sambandi við úrlausn á þessu og styðja síðan Samtök ísl. sveitarfélaga því þetta er auðvitað hluti af þeim kjaraumræðum sem í vændum eru.