135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[16:57]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála síðasta ræðumanni um að auðvitað eigum við að stefna að skóla án aðgreiningar og skilgreina þessi verkefni sem eðlileg og sjálfsögð viðfangsefni, eins og hv. þingmaður orðaði það. Við stöndum hins vegar frammi fyrir þeirri staðreynd að sú þjónusta sem börn fá í skóla eftir greiningu er mjög misjöfn, mjög mismunandi eftir skólum, það er bara staðreynd og á því verður auðvitað að taka. Það er auðvitað forsenda þess að við náum árangri í þjónustu við þessi börn að þau fái þá þjónustu innan skólans sem þau þurfa á að halda og þar þarf auðvitað að vera til þjálfað starfsfólk sem hefur þekkingu til að takast á við það verkefni.

Hv. þingmaður spyr hvort ég ætli að leita samstarfs við menntamálaráðherra í þessu máli. Það er auðvitað sjálfsagt að gera það en ég minni enn og aftur á að menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytið eiga fulltrúa í þeirri samstarfsnefnd sem vinnur með þau verkefni sem eru í aðgerðaáætluninni fyrir börn og ungmenni. En ég mun að sjálfsögðu ræða við menntamálaráðherra, og hef reyndar gert það, um að þetta sé mál sem við þurfum að taka sameiginlega á og ég vona að það verði gert.