135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:03]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Orð hæstv. félagsmálaráðherra um þá sérstöku fjárveitingu og átakið sem ákveðið var að fara í á sl. hausti í geðverndarmálum barna og ungmenna kveiktu í mér og urðu til þess að ég bað um orðið þótt svo sýndist sem umræðan væri að tæmast.

Það urðu nokkrar umræður um þessa framkvæmdaáætlun í síðustu viku í tilefni fyrirspurna minna til hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann fer eðlilega með þau mál sem lúta að geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna. Eins og hæstv. ráðherra nefndi voru settar 150 millj. kr. í sérstaka aðgerðaáætlun í ágúst sl. og skyldi aðgerðaáætlunin taka til 18 mánaða. Þegar átta mánuðir voru liðnir af þeim tíma spurði ég ráðherrann hvar áætlunin stæði, hvaða árangur hefði náðst og hvernig yrði með framhaldið. Í máli hans kom fram að 16. ágúst í fyrra, þegar þessi áætlun var samþykkt, voru 165 börn og unglingar á biðlista hjá barna- og unglingageðdeildinni, BUGL. Núna, átta mánuðum síðar, voru þau 107. Það hafði saxast verulega á listann en enn fleiri höfðu bæst á hann. Biðtíminn hafði styst eitthvað. En við skulum gera okkur grein fyrir því að þrátt fyrir að setja 50–60 millj. til BUGL til þess að bæta stöðuna, er árangurinn ekki meiri en þessi. Það eru enn þá 107 börn á biðlista eftir fyrsta viðtali á BUGL. Það er enginn að tala um innlögn eða aðstoð, þetta eru viðtal og greining. Það er auðvitað grafalvarlegt ástand.

Ég vil taka fram að það hafa líka styst biðlistar hjá Miðstöð heilsuverndar barna en betur má ef duga skal. Við skulum átta okkur á því, herra forseti, að við glímum við uppsafnaðan vanda. Á undanförnum áratugum hafa geðheilbrigðismál verið olnbogabarn í heilbrigðiskerfi okkar en geðheilbrigðismál barna og ungmenna hafa sætt þar afgangi. Við verðum bara að viðurkenna það. Við erum með allt of fáa sérfræðimenntaða menn í þessum fögum og ég vil hvetja til þess enn og aftur að stofnaður verði prófessorsstóll við læknadeild Háskóla Íslands í geðlækningum barna og ungmenna. Það mundi efla starfið á þessu sviði og væntanlega kalla á kandídata og stúdenta til þess að leggja þetta fyrir sig. Við erum einfaldlega með allt of fáa sérmenntaða menn á þessu sviði. Okkur hefur ekki tekist að kalla á sálfræðinga inn í þessa þjónustu við börn og ungmenni sem er þó svo brýn vegna þess að Tryggingastofnun hefur ekki greitt með sama hætti fyrir þjónustu sálfræðinga eins og hún gerir fyrir þjónustu geðlækna. Það er mikið verk að vinna þarna enn þá.

Eitt af því sem var í þessari aðgerðaáætlun og mig langar til að nefna hér er að kalla átti til sjálfstætt starfandi sérfræðinga sem eru með stofur sínar úti í bæ og fá þá til að koma inn í þessa þjónustu til að þétta netið. Árangur af því er því miður mjög lítill. Mér er kunnugt um að einungis einn sjálfstætt starfandi sálfræðingur hefur orðið við auglýsingu og hvatningu um að leggja málinu lið í þessu átaki þannig að það virðist ekki hafa tekist.

Á sama tíma er unnið leynt og ljóst að því að koma upp einkarekinni geðdeild barna og unglinga í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur ehf., gömlu Heilsuverndarstöðinni sem illu heilli var tekin, seld og yfirgefin af ríki og borg sem aldrei skyldi verið hafa. Nú eru þar að hreiðra um sig einkaaðilar til þjónustu í heilbrigðismálum sem líta á þá þjónustu eins og hverja aðra vöru. Hún er kostuð af bönkum. Ef þú ert með gott kort frá tilteknum banka þá færðu afslátt af heilbrigðisþjónustu þarna. Hæstv. heilbrigðisráðherra upplýsti okkur í síðustu viku um að nú í þessari viku væri verið að opna þessa geðdeild barna og unglinga. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að við höfum ekkert efni á því að dreifa kröftunum á þessu sviði. Við höfum mjög fáa sérhæfða starfsmenn á þessu sviði og þurfum á öllum þeirra sameinuðu kröftum að halda. Það er ekki hægt að horfa upp á það mótmælalaust og ógrátandi, hreint út sagt, að einkareksturinn sogi þarna til sín sérfræðinga frá BUGL á sama tíma og ríkið setur 150 millj. kr. í þá þjónustu, þar af 65 millj. kr., minnir mig, til að efla BUGL sérstaklega.

Rætt hefur verið um að þétta þurfi samvinnu sveitarfélaga og ríkisins. Ég tek undir það sem með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni. Það er til fleiri átta að líta þar vegna þess að vandamál barna með geðraskanir eru svo fjölþætt að þau snerta ekki bara sveitarfélög og embætti hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra. Þau snerta líka, eins og ég hef nefnt, verksvið hæstv. heilbrigðisráðherra og ekki síst hæstv. fjármálaráðherra. Við vitum að þrír þessara ráðherra koma frá Sjálfstæðisflokknum og einn frá Samfylkingu. Ég þarf auðvitað ekki að útlista hverjum ég treysti best í þeim efnum og hverjum ég treysti verst. Frá því hæstv. heilbrigðisráðherra tók við embætti hefur mér fundist hann fara um á verksviði sínu sem fíll í glervörubúð. Ég treysti honum ekki í þessum efnum, engan veginn, en ég vil hvetja hæstv. félagsmálaráðherra til dáða. Það þarf að styrkja barna- og unglingageðdeildina. Eitt af því sem gera átti í þessu átaki var að gera úttekt á starfsemi og stjórn til að byggja framtíðarstefnu og gera langtímaáætlun um úrræði við börn og unglinga með geðraskanir og það er gott. Ég óttast að ekkert sé verið að vinna að þeirri úttekt. Það kom ekkert fram um það í síðustu viku að úttektin væri hafin. Ég vil hvetja til þess að farið verði í slíka úttekt á vegum utanaðkomandi aðila og að verði litið til fleiri þátta en bara stífrar heilbrigðisþjónustu sem flokkuð er undir geðhjúkrun og geðlækningar. Það þarf að taka skólana og félagsþjónustu sveitarfélaganna og þétta allt netið því að það er dapurlegt til þess að vita að þegar mest á ríður í lífi fjölskyldna og barna skuli ekki vera til öryggisnet sem grípur þau. Þau eru í frjálsu falli í fleiri mánuði þangað til þeim býðst fyrsta úrræði. Ég vil hvetja hæstv. félagsmálaráðherra til dáða á þessu sviði og að hún samþætti starf sitt því starfi sem nú fer fram hjá heilbrigðisráðherra. Ekki veitir af.