135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:37]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má vera að alltaf megi gera betur þegar kemur að málefnum barna. En það er ljóst að víða er staða barna verri, ekki síst þar sem eru börn sem lifa á stríðshrjáðum svæðum. Þar búa börn við allt aðrar og verri aðstæður heldur en hér eru. Almennt séð ætla ég að halda því fram að vel sé hlúð að börnum á Íslandi. Það er þannig og það veit hv. þingmaður mætavel.

Það að tala nánast sé eins og við séum að reka her á Íslandi er náttúrlega alveg hreinn og beinn útúrsnúningur. Að sjálfsögðu ber okkur að tryggja varnir landsins, það er alveg ljóst. Það mun alltaf fara einhver peningur í það. En hvort þetta á akkúrat að vera 3,8 milljarðar eða 2,3 milljarðar auk 1,5 milljarða með varnarmálaskrifstofunni, eða eitthvað örlítið meira eða örlítið minna, það er verkefni sem við verðum að leggjast yfir. Þess vegna komum við á forgangsröð.

Við ætlum ekki að sleppa því að vera með varnir. Þá gætum við lent illa í því, því miður. Við ætlum ekki sleppa því. Forgangsröðunin gengur út á hversu miklu við verjum til einstakra málaflokka. Ég get alveg hugsað mér að endurskoða hvað fer í varnarmálaskrifstofu, til heræfinga og hvað fer til málefna barna. Það er eitt af því sem liggur undir hjá fjárlaganefnd hverju sinni og ég sit reyndar í henni.