135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:41]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Það er margt og merkilegt sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur til málanna að leggja þegar við ræðum um barnaverndarmál. Ég heyrði ekki eitt einasta orð í hans ræðu sem sneri að tillögunni sem liggur fyrir en hins vegar getur hann talað lengi um Sjálfstæðisflokkinn. Mér finnst í sjálfu sér ágætt að hann skuli hafa svona mikinn áhuga á honum. Það sýnir náttúrlega þá virðingu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessu landi.

En það væri áhugavert ef Frjálslyndi flokkurinn, með Grétar Mar Jónsson í broddi fylkingar, hefði eitthvað raunverulegt til málanna að leggja, eitthvað annað en píp um hverjir séu hér, hverjir sitji og hlusti á skrifstofum sínum og hverjir séu í salnum. Ég held satt að segja að það væri skemmtilegra að eiga orðastað við mann sem hefði eitthvað raunverulegt til málanna að leggja.

Það væri gaman að spyrja hann út í nokkur atriði því ég er viss um að hv. þm. Grétar Mar Jónsson, frá Sandgerði, hefur lesið þessa tillögu afskaplega vel. Mig langar t.d. að vita hvaða skoðanir hann hefur á þeim rannsóknarverkefnum sem fjallað er um í þessari tillögu og hvort hann telji ekki til verulegra bóta að auka rannsóknir á umhverfi barna. Eða hvað finnst honum um að sérstök áhersla sé lögð á að veita athygli ungum börnum, eins og menn hafa rætt í dag, og þeim hættum sem að þeim steðja?

Heldur hv. þm. Grétar Mar Jónsson að Sjálfstæðisflokkurinn, sem ég veit ekki betur en sé í ríkisstjórn, styðji ekki mál hæstv. félagsmálaráðherra? Ekki fylgist hann vel með ef það er raunin.