135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:46]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur bersýnilega í ljós í þessari umræðu að það fer illilega í taugarnar á hv. þm. Ólöfu Nordal að við skulum krítisera hvernig kökunni er skipt. Það fer virkilega í taugarnar á henni. Þegar hún talar um að við þekkjum ekki til málanna er það náttúrlega ekkert annað en ömurlegur útúrsnúningur. Ég þekki vel til þessara mála og ég þekki þær hörmungar sem margar fjölskyldur hafa lent í út af börnum sem hafa verið að vissu leyti veik út af þessu, misþroska og öðru, og þess vegna er sorglegt að lenda í svona umræðu um þetta. Það sem ég er að gagnrýna enn og aftur er að það vantar peninga í málaflokkinn. Flokksbróðir hv. þm. Ólafar Nordal, Ármann Kr. Ólafsson, tók undir þessi sjónarmið mín, að kökunni væri kannski vitlaust skipt og peningum vitlaust forgangsraðað í hin ýmsu málefni sem snúa m.a. að börnum, svo ég taki það fram enn og aftur. Það vantar aura og það þarf að stýra þeim og þegar við gagnrýnum hvar og í hvað aurarnir eru settir, peningarnir, virðist það koma við kaunin á hv. þm. Ólöfu Nordal.

Þess vegna segi ég enn og aftur: Það er ekki hægt að fara út í þessa sálma í einstaka atriðum, enda skiptir það kannski ekki máli, við erum að tala um málaflokkinn í heild sinni og það er af nógu að taka þar.