135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:01]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar hér og óska henni og okkur öllum til hamingju með þessa þingsályktunartillögu sem er sú fyrsta af þessu tagi. Vonandi á hún eftir að breyta og bæta verulega það svið í samfélaginu sem að þessu snýr að því ólöstuðu sem hingað til hefur verið gert en við höfum farið skrykkjótta leið í þessum málaflokki.

Orðalagið í þingsályktuninni með greinargerðinni er víða þannig að ábyrgð, framkvæmd og samstarf eru fyrst og fremst á opinberum vegum. Ég vil spyrja ráðherrann sérstaklega um það hlutverk sem aðrir, Alþjóðahúsið, verkalýðshreyfingin, Rauði krossinn og miðstöð innflytjendarannsókna í Reykjavíkurakademíunni eiga að hafa í þessu. Er ekki gert ráð fyrir því að starfa með (Forseti hringir.) þessum aðilum eða er það haft einhvers staðar þar sem ég sé ekki til?