135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:05]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var okkur mikið keppikefli í félags- og tryggingamálaráðuneytinu þegar við fórum að vinna að þessari framkvæmdaáætlun að nýta þá þekkingu og reynslu sem víða er til staðar í þjóðfélaginu í þessum mikilvæga málaflokki eins og hjá þeim aðilum sem hv. þingmaður nefndi, frjálsum félagasamtökum, Rauða krossinum, Alþjóðahúsi o.s.frv.

Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. þingmanni að það var haldið mjög fjölsótt málþing um þessa framkvæmdaáætlun þar sem allir þessir aðilar komu á. Þeir komu með mjög góðar ábendingar um ýmis atriði sem skiluðu sér rakleitt inn í þessa framkvæmdaáætlun. Mér er því til efs að í nokkrum öðrum málaflokki hafi verið haft eins víðtækt og breitt samstarf við alla aðila sem hafa þekkingu og mikla reynslu á þessum málum. Ég held að þessi tillaga beri þess glöggt vitni og ég veit ekki til þess að þeir sem best þekkja til í þessum málum séu með stórar athugasemdir við þessa framkvæmdaáætlun.