135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:09]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu munum við gera það. Það er auðvitað sjálfsagt að nýta okkur reynslu þeirra þjóða sem betur þekkja til þessa málaflokks en við og sem hafa lengur haft innflytjendur í sínu landi. Einnig var litið til reynslu þessara þjóða þegar við vorum að semja framkvæmdaáætlunina og mun það örugglega verða gert í enn meira mæli þegar við semjum frumvarpið.

Ég vil nefna það út af orðum hv. þingmanns og líka síðasta ræðumanns að ég var mjög óánægð með það á síðasta þingi hjá fyrri ríkisstjórn að hún skyldi ekki setja þá stefnumótun sem var þó unnin í síðustu ríkisstjórn fyrir Alþingi til skoðunar. Ég átti auðvitað þann kost að setja þetta mál ekki fyrir þingið heldur einungis að fá það samþykkt í ríkisstjórn eins og stefnumótunina.

Mér finnst sjálfsagt í svona stórum málaflokki að Alþingi eigi fulla aðkomu að þessu, bæði framkvæmdaáætlunina og auðvitað (Forseti hringir.) löggjöfina og hefði það átt að eiga aðild að stefnumótuninni líka.