135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[18:23]
Hlusta

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna umræðu á hinu háa Alþingi um málefni innflytjenda. Umræða um málefni innflytjenda hefur aukist verulega undanfarin ár bæði meðal almennings og stjórnmálamanna en lítið hefur farið fyrir almennri stefnumótun hins opinbera í þessum málaflokki. Umræðan hefur að miklu leyti snúist um hvaða vandamál fylgi innflytjendum og hvernig herða og takmarka megi aðgengi þeirra að landinu, líkt og kom fram í máli hv. þm. Grétars Mars Sigurðssonar, í stað þess að horfa til þess hvernig innflytjendur styrkja og auðga íslenskt samfélag sé þeim veitt færi á að njóta sín í samfélaginu án fordóma.

Við þurfum að búa vel að innflytjendum og sjá til þess að þeir njóti jafnra tækifæra á við aðra þjóðfélagsþegna og gera þeim þannig kleift að verða hluti af samfélaginu, bæði í félagslegu og lagalegu tilliti. Mikilvægt er að sjá til þess að innflytjendur verði ekki einangraður minni hluti samfélagsins en hægt er að fyrirbyggja slíkt með markvissum aðgerðum og þar leikur stefnumótun stjórnvalda, upplýsingar og fræðsla lykilhlutverk.

Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem hér liggur fyrir er að flestu leyti mjög góð og gott innlegg í umræðuna. Ég set hins vegar spurningarmerki við ríkisstofnanavæðingu ýmissa þátta í ályktuninni því að ljóst er að þriðji geirinn eins og hann er kallaður í ályktuninni — hér er átt við félagasamtök, símenntunarmiðstöðvar, einkaaðila o.s.frv., sem dæmi má nefna Alþjóðahús og Rauða krossinn og fleiri einkaaðila og stofnanir — hefur að miklu leyti tekið málefni innflytjenda upp á sína arma undanfarin ár og átt frumkvæði að margvíslegri þjónustu svo sem fræðslu, ráðgjöf, upplýsingagjöf og svo mætti lengi telja. Ljóst er að einkaaðilar eru fullfærir til þess að sinna mörgum af þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir í framkvæmdaáætluninni.

Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra hvort ekki væri nær að styrkja og efla þriðja geirann sem nú er til staðar á markaðnum og hefur að geyma ómælda þekkingu í stað þess að keyra í átt til miðstýringar með þeim hætti sem hér er lagt til.