135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[19:25]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrirspurn minni var ég kannski ekki endilega að vísa til hópa en hv. þingmaður talaði um að hingað kæmi fólk sem samfélaginu kynni að stafa ógn af og það gæti bæði verið um hópa eða einstaklinga að ræða. Ef svo er þá þarf vissulega að fara fram ákveðin vinna áður, til að greina hvers konar fólk er um að ræða eða hvaða hættur steðja að samfélaginu vegna komu þess. Slík vinna vissulega þarf þá að fara fram og það væri gott að það kæmi fram.

Hv. þingmaður vitnaði í ræðu sinni talsvert í dr. Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóra, og benti réttilega á að það er alveg ljóst að þegar fólk færir sig á milli staða hefur það vissulega áhrif, frjáls för fólks gerir það, hefur kostnað í för með sér o.s.frv., um það er ekki deilt.

Spurningin er kannski miklu frekar sú hvernig eigi að bregðast við. Ef þetta er vandamál sem á að reyna að komast hjá hvort þá sé verið að tala um að hefta frjálsa för fólks eða hvernig viðbrögð er verið að tala um. Það er kannski það sem mér finnst skipta máli að komi fram í þessari umræðu.

Hv. þingmaður setur fram sín sjónarmið og talar um það sé óheppilegt að allar raddir í kórnum séu eins, allir hafi sömu raddirnar. En það var hins vegar að heyra hér áðan að að minnsta kosti tveir fyrstu meðlimir kórsins tjáðu sig á svipaðan og sambærilegan hátt.