135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[19:27]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leyfði mér að vísa í ræðu dr. Gunnars Thoroddsens heitins vegna þess að hann var borgarstjóri í Reykjavík á helstu umbrotatímum í íslensku samfélagi þegar um var að ræða eina mestu byggðaröskun í íslensku samfélagi.

Það er oft gott að rífa hlutina út úr því samhengi sem þeir eru í í raunveruleikanum í dag og átta sig á því hvað sagan getur kennt okkur. Þess vegna vísaði ég til og benti á að það eru sömu sjónarmið og röksemdir sem dr. Gunnar Thoroddsen benti á á sínum tíma fyrir 59 árum. Þau eiga með sama hætti, að breyttu breytanda, við í dag nema nú er um að ræða innflytjendur en þá var um að ræða fólk sem streymdi af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Þar með skapast ákveðin vandamál en það koma líka ákveðnir góðir hlutir með þeim sem koma, að sjálfsögðu. Spurningin er hvernig við bregðumst við. Á þetta var ég að benda, þ.e. að við þurfum að gæta þess að það sé jafnvægi í samfélaginu og það verði ekki félagsleg undirboð og gæta þess að virða mannréttindi allra. Á þeim tíma þegar fólk streymdi af landsbyggðinni þá var nú heldur betur pottur brotinn. Fólk bjó í heilsuspillandi húsnæði í lengri tíma. Við slíku höfum við varað og viljað berjast gegn.

Það er eitt sem er grundvallaratriði, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Þegar við erum meira og minna að tala sama tungumálið um það að gæta réttinda þeirra sem hingað eru að koma, skapa þeim góð lífskjör, þá mega menn ekki reyna að búa til andstæðinga eða reyna að halda fram að menn séu að segja eitthvað annað en þeir eru raunverulega eru að (Forseti hringir.) segja.