135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[20:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Ég hef fylgst af athygli með þessari umræðu í dag og verð að segja að þegar á heildina er litið er samhljómur í því sem fólk er að segja. Það er samhljómur að því leyti að við erum öll sátt við meginboðskapinn sem hér kemur fram og lýtur að því styrkja löggjöf og stofnanir sem sinna aðkomufólki, fólki sem flust hefur til Íslands og hefur sest hér að til skamms eða langs tíma. Menn hafa sett fram ýmis varnaðarorð í þessu efni og eins og við munum hafa verið deildar meiningar um hve mikið við eigum að opna þjóðfélagið fyrir aðstreymi vinnuafls.

Það kom upp í aðdraganda kosninga, hygg ég að það hafi verið þegar ákveðið var að opna Ísland fyrir fólki frá hinum svokölluðu nýju Evrópusambandsríkjum. Við fluttum þá sameiginlega tillögu, Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, um að hafa ívið lengri frest en þáv. ríkisstjórn var reiðubúin til að fallast á. Síðan voru aðrir sem vildu að þessi frestur yrði enn lengri. Staðreyndin er sú að þar vorum við aðeins að tala um frest á einhverju sem kæmi til með að verða að veruleika innan ekki svo ýkja langs tíma.

Staðreyndin er náttúrlega sú að heimurinn er allur að opnast til góðs og ills með kostum og löstum og það á einnig við um vinnumarkaðina. Sérstaklega á þetta að sjálfsögðu við um hið Evrópska efnahagssvæði en samstarf þeirra ríkja sem eiga aðild að því byggir m.a. á því að þar verði frjálst flæði vinnuafls. Nú er Ísland opið fyrir öllu hinu Evrópska efnahagssvæði þó að einhverjar skorður séu þar enn í vissum undantekningartilvikum.

Við mismunum hins vegar fólki eftir því hvaðan það kemur úr heiminum. Launafólki í Evrópu stendur Ísland opið en búi fólk annars staðar í heiminum þá er það lokað. Það sem mér finnst vera áhyggjuefni er að ríkisstjórnin ætlar núna að opna vinnumarkaðinn fyrir erlendu fólki utan hins Evrópska efnahagssvæðis ef það hefur próf upp vasann, ef það hefur próf upp á það sem vísað er til í greinargerð með frumvarpinu að vera hæfileikafólk. Hér er verið að opna á að við gefum heimild til t.d. starfsfólks í heilbrigðisþjónustu, læknum, hjúkrunarfræðingum.

Við skulum minnast þess hvað það þýðir fyrir þróunarlöndin sem missa í unnvörpum fólk úr þessum geira. Nei, þá ætla Íslendingar að búa til sérstaka glufu fyrir hæfileikafólkið svokallaða með háskólagráðu. Það liggur fyrir frumvarp þessa efnis fyrir þinginu og er núna til umfjöllunar í félagsmálanefnd Alþingis. Við mismunum í þágu launafólks í Evrópu og þá á kostnað annars fólks, ef svo væri hægt að komast að orði. Þegar við ætlum núna að opna landið enn meira ætlum við að gera það á þessum forsendum. Ég hef um það ákveðnar efasemdir.

Hér hafa verið fluttar ýmsar ræður, þar á meðal með varnaðaraorðum um að Ísland sé að opnast of mikið og hratt, það komi of margt erlent fólk hingað á of skömmum tíma. Ég held að það sé mikið til í þessu og ég vara við því að leggja út á versta veg varnaðarorð sem menn setja fram með mjög málefnalegum hætti hvað þetta snertir. Við erum mjög lítið samfélag og það má lítið út af bregða til að hér fari ekki allt úr skorðum. Við getum ekki tekið á móti fólki eins og við viljum og maður heyrir þingmenn úr öllum flokkum tala fyrir.

Hvernig á að gera þetta? Hvernig á að hafa innstreymið til landsins það temprað að það valdi ekki ójafnvægi? Jú, það gerir maður einmitt með því að skapa jafnvægi, með því að koma í veg fyrir að hér skapist eftirspurn í stórum stökkum. Það er þarna sem samhengið liggur á milli þeirrar stefnu sem íslensk stjórnvöld hafa fylgt á undanförnum árum og mikils innstreymis erlendra launamanna til landsins. Þar erum við náttúrlega að tala um stóriðjustefnuna sem m.a. hefur sett allan vinnumarkaðinn á spil. Muna menn eftir því þegar við úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfðum einmitt uppi varnaðarorð hvað þetta snertir? Þetta er nokkuð sem okkur ber að læra af og draga rétta lærdóma af fyrir framtíðina.

Hæstv. forseti. Ég er ánægður með megininntakið í þessari þingsályktunartillögu. Hér er verið að stofnanagera og skapa lagalega umgjörð fyrir ýmsu sem er að verða til og er þegar orðið til hvað varðar móttöku útlendinga til landsins inn á íslenskan vinnumarkað. Þar hafa margir komið við sögu, verkalýðssamtökin og margvísleg grasrótarsamtök. Síðan hafa orðið til stofnanir á borð við Alþjóðahúsið og opinberar stofnanir á borð við Fjölmenningarsetrið á Vestfjörðum og þannig mætti áfram telja.

Menn hafa svolítið verið að ræða hvert eigi að vera hlutverk hins opinbera og svokallaðra grasrótarsamtaka eða þriðja geirans, eins og stundum er vísað til, stofnana á borð við Rauða krossinn, jafnvel Alþjóðahúsið og annað af því tagi. Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst alveg sjálfsagt að huga að því að gera samninga við slíka aðila um tiltekin verkefni. En ef við ætlum að taka þennan málaflokk eins alvarlega og mér heyrist þingið almennt vilja og þverpólitísk samstaða er um, á það að vera skipulagt á vegum samfélagsins. Þá á þessi þjónusta að sjálfsögðu að eiga sér kjölfestu í hinu opinbera kerfi.

Hér hafa sjálfstæðismenn komið upp og talað af fyrirlitningu um ríkisvæðingu. Hvers konar rugl er þetta eiginlega, þegar verið er að tala um hvað við sem samfélag ákveðum að gera í sameiningu og reka það á eins hagkvæman og markvissan hátt og við mögulega getum? Við skulum ekki gefa okkur neinar endanlegar niðurstöður í þessum efnum. Mér er kunnugt um að menn eru að ræða leiðir í þessu sambandi innan félagsmálaráðuneytisins og ég tel að stjórnvöld hefðu kannski átt að vera duglegri að sækja ráðgjöf og efna til umræðu við hina margbreytilegu flóru sem kemur að þessum málum. Ég held að það hefði verið heppilegt en við eigum ekki að festa okkur í einhverjum farvegi eins og ég heyrði á málflutningi ýmissa sjálfstæðismanna hér í umræðunni sem töluðu af fyrirlitningu um það sem þeir kölluðu ríkisvæðingu. Við erum einfaldlega að tala um starfsemi á vegum hins opinbera til að sinna mjög veigamiklum og mikilvægum málum.