135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[20:14]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var í rauninni að vara við einhverjum allsherjarlausnum í þessu og hvetja til þess að við skoðuðum alla möguleika. Ég talaði um að mikilvægt gæti verið að semja við þau samtök og stofnanir sem hv. þm. Mörður Árnason vísaði til.

Ég talaði hins vegar fyrir því að það ætti að vera ákveðin kjölfesta í þessum mikilvæga málaflokki og lýsa minni skoðun á því að hún eigi að vera hjá hinu opinbera, það er mín skoðun. Það er langt því frá að ég tali af nokkurri vantrú um þriðja geirann, hvort sem það eru samtök á borð við Rauða krossinn eða Alþjóðahús eða verkalýðshreyfinguna. Ég tala nú almennt bara nokkuð vel um hana en gef mér ekki neitt fyrir fram í þessum efnum eins og mér fannst þingmenn Sjálfstæðisflokksins gera. Þeir töluðu um ríkið sem eitthvað af hinu illa þegar við töluðum um samfélagið og hvernig við getum gert hlutina á sem hagkvæmastan hátt. Þetta voru mínar áherslur.

Ég vek athygli á því að það kunna að vera mismunandi sjónarmið að ég hygg innan allra flokka um hvaða stofnanalegu leiðir er best að fara í þessum efnum. Við erum að tala hér um þingsályktunartillögu sem tekur á mjög mörgum málasviðum, tungumálakennslu, vinnumarkaði, margvíslegum réttindum og það er ekkert endilega eitthvað eitt sem gildir um alla þessa þætti. Það er þetta sem var þungamiðjan í málflutningi mínum.