135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[20:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum ekki ósammála í grundvallaratriðum í þessum efnum. Ég tel að sjálfsögðu mikilvægt að skoða hvernig hægt væri að gera þjónustusamninga við aðskiljanlega aðila um framkvæmd ýmissa verkefna en ég kvika ekki frá þeirri grundvallarafstöðu minni að mér finnst að þungamiðjan í þessu starfi eigi að vera hjá samfélaginu, hjá hinu opinbera. Ríkið hefur verið að gera ýmsar tilraunir í þessum efnum. Þannig var sett á laggirnar fjölmenningarsetur á Vestfjörðum. Ég þekki þessi mál ekki nægilega vel til að geta talað um þau af einhverri þekkingu og dýpt, málið kemur fyrir félagsmálanefnd og þá gefst okkur tækifæri til að setja okkur betur inn í þau mál. En ég spyr: Er hægt að efla þá stofnun til að sinna tilteknum þáttum eða vera þungamiðjan í þessu starfi? Mér finnst það vera nokkuð sem við hljótum að skoða. Síðan eru aðrir þættir sem eiga hugsanlega heima annars staðar.

Ég tel að með þessari þingsályktunartillögu sé verið að lýsa yfir vilja Alþingis og stjórnvalda til að taka á þessum málum á markvissan hátt. Ég hvet til þess að við gefum okkur engar endanlegar lausnir um útfærslur sem gefnar fyrr en að vel athuguðu máli.