135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[20:19]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með félögum mínum í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa lýst yfir því að við erum í meginatriðum mjög sátt við og ánægð með að þessi þingsályktunartillaga hefur verið lögð fram. Við lögðum á það mikla áherslu fyrir síðustu þingkosningar, eins og reyndar fleiri flokkar, að mótuð yrði heildstæð stefna í málefnum innflytjenda og að reynt yrði að taka myndarlega á þeim málum og að sjálfsögðu er verið að gera það með þeirri þingsályktunartillögu sem nú hefur verið lögð fram. Ég fagna því og vænti þess að hún fái góða og ítarlega umfjöllun í hv. félagsmála- og trygginganefnd og þar verði farið yfir einstaka þætti þeirrar áætlunar sem hér er lögð fram og leitað umsagna þeirra aðila sem eðlilegt er að leita umsagna hjá um málið og hafa mikla reynslu og þekkingu á þessu málasviði. Þeir munu þá koma með frekari ábendingar og hugmyndir um viðbætur, breytingar o.s.frv. við málið í meðförum þingsins.

Það eru nokkur atriði sem ég hefði viljað hnykkja á. Hv. þm. Paul Nikolov fór yfir allmörg atriði í tillögunni og rakti viðhorf og lagði fram spurningar varðandi ýmis atriði. Ég ætla að hnykkja á nokkrum þeirra atriða sem okkur finnst mikilvægt að verði skoðuð og hugsanlega fást einhver viðbrögð við frá hæstv. félagsmálaráðherra við umræðuna. Ég ætla að byrja á að nefna það sem í þingsályktunartillögunni er kallað Fyrstu skrefin á bls 15 undir tölulið 3 um upplýsingamiðlun til innflytjenda. Þar er fjallað um að gefinn verði út sérstakur bæklingur sem heiti Fyrstu skrefin. Ég held að við getum öll verið sammála um að einmitt fyrstu skrefin, það sem mætir innflytjanda þegar hann kemur til landsins er ekki hvað síst mikilvægt, hvernig tekið er á móti fólki þegar það kemur fyrst til landsins. Það skiptir miklu máli fyrir þá upplifun sem það hefur af því að koma til landsins og hvernig það upplifir viðmótið til sín þegar það kemur hingað. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Talað er um að fara eigi fram reglubundin endurskoðun á bæklingi á níu erlendum tungumálum um fyrstu skrefin í íslensku samfélagi sem verði uppfærður eftir þörfum og dreift á helstu viðkomustöðum innflytjenda. Sem ábending væri kannski skynsamlegt og mikilvægt að bæklingur af þessu tagi væri hreinlega afhentur með atvinnu- og dvalarleyfi þegar fólk fær það, að þetta sé ekki bara til dreifingar á einhverjum tilteknum stöðum heldur sé þetta eitthvað sem er tryggt að fólk fái almennt þegar það kemur hingað til lands.

Hér hefur aðeins verið talað um réttindi ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins og kannski er ekki mikil ástæða til að fara frekar yfir það. Það er líka tekið fyrir í öðru þingmáli sem hér er og hv. þm. Ögmundur Jónasson gat um og er þegar til umfjöllunar. Hv. þm. Paul Nikolov vakti athygli á því að það er afar mismunandi nálgun hvað varðar ríkisborgara ríkja innan EES-svæðisins annars vegar og þeirra sem koma frá ríkjum utan þess hins vegar. Hvað varðar dvalar- og atvinnuleyfi til ríkisborgara innan EES-svæðisins er lögð áhersla á að reyna að einfalda þá stjórnsýslu alla og hvernig á móti þeim er tekið en hvað varðar ríkisborgara utan EES-svæðisins er meiri áhersla á eftirlit með þeim og má velta því fyrir sér hvernig einföldunin á þessu stjórnkerfi mætir ríkisborgurum sem eru utan EES-svæðisins. Þetta er til umhugsunar, ekki ákveðnar tillögur í þessu efni á þessu stigi.

Hv. þm. Paul Nikolov vakti líka athygli á því í umfjöllun sinni um kaflann Móttaka við búsetuflutning á bls. 23 í tillögunni að sveitarfélögum verði gert auðveldara að koma á skipulegu móttökuferli fyrir nýja íbúa og þarna verði unnin einhver fyrirmynd að móttökuáætlun sveitarfélags, sem ég held að sé ágætt. En það væri gott, finnst mér, að í þessu ferli sé þeirri spurningu líka svarað hvernig á að gera þetta og hvernig á svona móttökuáætlun að vera. Á hún að vera samræmd fyrir alla sem koma, óháð því í hvaða sveitarfélag þeir fara eða á þetta að vera með mismunandi hætti?

Ég vil einnig nefna mikilvægt mál sem varðar mat og viðurkenningu á erlendri starfsmenntun og námi. Hér er talað um að einfalda eigi þetta mat og viðurkenningu á erlendri starfsmenntun. Ég held að það sé mjög þýðingarmikið að gera þetta og vinna að því en hér má líka segja að þeirri spurningu er ósvarað hvernig á að gera það. Mér finnst ekki nóg í ályktun eins og þessari, sem er má segja ákveðin framkvæmdaáætlun, að það eigi að einfalda reglurnar eða þetta mat og viðurkenningu á erlendri starfsmenntun heldur verður að segja hvernig á beinlínis að ná þeim árangri sem þarna er að stefnt. Mér finnst það vanta og eðlilegt að um það sé frekar rætt á vettvangi nefndarinnar.

Það má velta fyrir sér umfjölluninni um aðlögun nemenda að íslensku skólakerfi. Þar er fjallað um að sérhver skóli geri sína áætlun um innritun og móttöku barna af erlendum uppruna. Þar vaknar líka spurningin: Eigum við að vera með margar mismunandi áætlanir sem hver skóli vinnur fyrir sig eða á samræma það eitthvað meira, hafa samræmda áætlun sem tekur mið af mismunandi bakgrunni þeirra nemenda sem koma til landsins þannig að nemendur með sambærilegan bakgrunn fái sömu móttökur óháð því í hvaða skóla þeir eru en það sé ekki undir hælinn lagt? Þetta eru atriði til umhugsunar og ábending um það hér af okkar hálfu.

Ég vek líka athygli á að á bls. 46 í tillögunni undir 15. kafla þar sem fjallað er um íslenskunám fyrir fullorðna er í grein 15.4 talað um starfstengt íslenskunám fyrir fiskvinnslufólk. Ég held að starfstengt íslenskunám sé almennt mjög mikilvægt og í raun og veru alveg óháð því hvaða atvinnugrein um er að tefla. Innflytjendur starfa ekki aðeins í fiski eða í frystihúsum, þeir starfa á mörgum öðrum atvinnusviðum. Mér finnst að svara þurfi þeirri spurningu hvort ekki sé ætlunin og markmiðið að koma á starfstengdu íslenskunámi fyrir allar atvinnugreinar ef svo má segja, að ekki sé aðeins ein atvinnugrein tekin út úr, takmörkuð eins og hún er. Mér finnst að þetta þurfi að koma til umfjöllunar í nefndinni og hugsanlega inn í nefndarálit o.s.frv.

Það síðasta sem ég vildi nefna í þessu samhengi, herra forseti, er það sem lýtur að atvinnuleyfum útlendinga. Um það er aðeins fjallað lítillega í tillögunni en mér sýnist að hér sé enn þá gert ráð fyrir að atvinnuleyfi séu veitt fyrirtækjum, atvinnurekendum, að það séu atvinnurekendur sem fá í raun og veru atvinnuleyfin eða atvinnuleyfi til útlendinga séu bundin tilteknum vinnuveitanda.

Við vinstri græn lögðum fram frumvarp á Alþingi í nóvember sl. þar sem m.a. er gert ráð fyrir því að atvinnuleyfi verði veitt til einstaklinga en ekki fyrirtækja og einstaklingarnir fái í hendur allar nauðsynlegar upplýsingar á móðurmáli sínu. Þetta voru áherslumál okkar. Við teljum mjög mikilvægt að einstaklingarnir fái atvinnuleyfin í hendur til sín. Um þetta hefur verið mikið rætt, þetta var eitt af áherslumálum okkar í kosningabaráttunni, þetta var líka eitt af áherslumálum Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar. Mér leikur því forvitni á að vita hver afstaða hæstv. félagsmálaráðherra er til þessa máls, hvort hún styður hugmyndina í því þingmáli sem við höfum lagt fram um að atvinnuleyfin verði veitt einstaklingum en ekki atvinnurekendum, og hvort ekki væri eðlilegt að um þetta mál væri sérstaklega fjallað í þessari þingsályktunartillögu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Almennt líst (Forseti hringir.) okkur vel á það eins og það er lagt upp en að sjálfsögðu eru fjölmörg atriði sem við áskiljum okkur rétt til að fjalla frekar um í meðförum þingsins.