135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[20:30]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég stend hér aðallega upp til þess að þakka fyrir þá góðu og málefnalegu umræðu sem farið hefur fram um þessa fyrstu framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Ég held að þinginu væri mikill sómi að því ef svo færi að eftir umfjöllun í nefndinni væri hægt að ná breiðri samstöðu um málið og þingheimur væri einhuga um þessa áætlun. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það hafa komið fram ýmsar ábendingar og athugasemdir sem ég vænti að verði skoðaðar nákvæmlega í félags- og tryggingamálanefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar og hún muni þá eftir atvikum taka tillit til þeirra athugasemda sem hafa komið fram.

Mér þótti mjög ánægjulegt og fagnaði því mjög að við þessa fyrstu framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda hafi innflytjandi, Paul Nikolov, tekið þátt í umræðunni með mjög málefnalegum og góðum hætti. Við hljótum auðvitað að hlusta vel á hvað innflytjendur hafa til málanna að leggja í þessu sambandi.

Það hefur mikið verið talað um íslenskukennsluna sem er auðvitað grundvöllur fyrir því að innflytjendur geti aðlagast landi og þjóð vel og eðlilega. Það hefur líka sýnt sig í þeim könnunum sem hafa verið gerðar að innflytjendur vilja læra íslensku og ríkisstjórnin hefur lagt sig fram um að auka verulega fjármagn til íslenskukennslu sem var lítið til að byrja með, að mig minnir 15 milljónir. Hæstv. menntamálaráðherra hefur verið ötul við að auka fjármagn til íslenskukennslu sem nú er um 240 milljónir en ekki 100 milljónir eins og einn hv. þingmaður nefndi áðan. Það er auðvitað mjög mikilvægt að við aukum jafnt og þétt framlag til íslenskukennslunnar.

Einn eða tveir ræðumenn nefndu að við þyrftum að læra af t.d. Norðurlandaþjóðunum um það sem miður hefur farið og ég get vel tekið undir að það er mjög mikilvægt að gera það. Í því sambandi nefni ég að í Svíþjóð var gefin út svokölluð „svartabók“ þar sem skráð voru þau mistök sem Svíar sáu að þeir höfðu gert í þeirri þróun sem þeir hafa gengið í gegnum varðandi innflytjendur. Ég á von á því að þegar farið verður að móta löggjöf um innflytjendur hér muni það verða skoðað, þ.e. hvað aðrar þjóðir hafa talið til mistaka í þeirri þróun sem þær hafa gengið í gegnum í því ferli.

Þar sem engum sérstökum spurningum var beint til mín sé ég ekki ástæðu til að svara neinum spurningum en hins vegar komu fram ábendingar og athugasemdir sem verða væntanlega ræddar í nefndinni. Varðandi spurningu síðasta ræðumanns, hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, þá fórum við í gegnum þegar við ræddum frumvarpið um atvinnuréttindi útlendinga þá leið sem er lögð fram í því frumvarpi og er til umfjöllunar í félags- og tryggingamálanefnd. Þar var rædd nálgun í þessu máli sem ég veit að eru skiptar skoðanir um. Þar eru aðilar vinnumarkaðarins sammála og ég legg auðvitað mikið upp úr því að við höfum hliðsjón af því sem þessir aðilar leggja til. Þeir benda á í þessu sambandi að þetta fyrirkomulag leiði til þess að það verði auðveldara bæði fyrir stjórnvöld og stéttarfélög að fylgjast með því að ekki sé farið illa með útlendinga á innlendum vinnumarkaði, svo dæmi sé tekið. Þeir benda á t.d. að í því fyrirkomulagi sem er ábyrgist atvinnurekandi greiðslu heimferðar o.s.frv. Þetta mál er til umfjöllunar í félags- og tryggingamálanefnd og við fáum þá frekara tækifæri til þess að ræða það þegar það mál kemur aftur til 2. umr.

Að lokum ítreka ég þakklæti fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram og þá breiðu samstöðu sem mér sýnist vera um þetta mikilvæga mál þó að eðlilega hafi ýmsir þingmenn sett fram ákveðnar athugasemdir og ábendingar sem verða væntanlega skoðaðar í nefndinni sem fær málið til umfjöllunar.