135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

545. mál
[20:48]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er orðið dálítið erfitt að reyna að skilja þær miklu reglur sem búið er að koma upp í kringum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og ég verð að viðurkenna að þegar ég er búinn að lesa yfir frumvarpið og skýringar með því, og kannski sérstaklega það sem á nú að verða lagatexti, þá finnst mér málið ekki vera alveg skýrt. Það sem mér finnst verra er að málið er mjög opið. Þetta verður ansi mikil heimildalöggjöf miðað við þennan uppsetta lagatexta, sem ráðherra getur útfært eftir því sem honum sýnist rétt vera á hverjum tíma. Réttindin verða því óljósari, finnst mér, miðað við það sem gildir í dag. Ég held að nauðsynlegt væri að hv. menntamálnefnd skoðaði 1. gr. frumvarpsins í því ljósi að það sé þeim manni ljóst sem les textann hvaða réttur stendur hverjum til boða. Mér finnst það vera orðið ansi þokukennt þegar ég les mig í gegnum þennan texta hvað raunverulega felst í þessum ákvæðum.

Í lagatextanum segir, þegar fjallað er um hverjir eigi að falla undir þann rétt sem felst í 1. mgr. 13. gr., með leyfi forseta:

„Sama gildir um námsmenn sem eru ríkisborgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og fjölskyldur þeirra.“

Síðan kemur tilvísun í reglugerð Evrópusambandsins nr. 1612/1968. Þá þarf að velta fyrir sér: Hverjir eru það sem falla þar undir? Hvaða skilgreiningar er að finna þar sem þarf að vita og hafa til hliðsjónar til að skilja hvaða takmarkanir felast í 2. mgr. þessarar 13. gr.? Mér finnst það vera dálítið óljóst satt að segja, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það kann að vera ljóst þeim sem eru með þessi plögg við höndina en íslenskur lagatexti er óljós vegna þess að það sem þarf til að skilja hann er að finna í öðrum texta og ekki endilega í íslenskum lagatexta þar að auki.

Síðan set ég spurningarmerki við 3. mgr. þar sem fjallað er um rétt ríkisborgara ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu sem ekki eru starfandi launþegar eða sjálfstæðir atvinnurekendur hér á landi, að þeir öðlist fyrst rétt til námsaðstoðar eftir fimm ára samfellda búsetu á Íslandi. Ég set spurningarmerki við það hvort það standist örugglega að aðgreina réttinn svona því að athugasemdirnar í málinu hafa að nokkru leyti byggst á þessu. Er þá hægt að taka ákveðinn hluta íbúa landsins út úr og segja við þá: Þið fáið ekki þennan rétt fyrr en eftir fimm ára dvöl? Þeir sem eru starfandi hafa ákveðinn rétt en þeir sem ekki eru starfandi hafa annan rétt. Ég velti því fyrir mér hvort það standist í raun og veru jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eða þá reglu sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur um jafnan rétt borgara innan svæðisins.

Síðan kemur 4. mgr. þar sem er undanþága frá 3. mgr. en henni lýkur með því að segja, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra getur sett reglur um námslánarétt eftirlaunaþega, öryrkja og annarra launþega eða sjálfstæðra atvinnurekenda sem ekki uppfylla skilyrði 3. mgr. um fimm ára samfellda búsetu á Íslandi.“

Þá spyr ég: Hvaða reglur? Hvaða reglur getur ráðherrann sett um námslánarétt þessara hópa? Getur ráðherrann ákveðið það að rétturinn sé jafnmikill og þeir fá sem hafa hann? Getur ráðherra ákveðið að rétturinn sé minni, að hann sé breytilegur eftir ráðherrum eða tímum? Hvaða reglur getur ráðherrann sett?

Mér finnst vanta afmörkun í lagatextann á þessu. Mér finnst þetta vera of mikið framsal á lagasetningarvaldi til ráðherra.

Síðan er það síðasta málsgreinin sem mér finnst líka vera allt of rúm en þar segir að ráðherra geti sett reglur um rétt íslenskra og erlendra ríkisborgara til námsaðstoðar á Íslandi og erlendis. Það er allsherjarframsal til ráðherra um að setja reglur hvort sem það lýtur að Íslendingum eða útlendingum, hvort sem það lýtur að námi á Íslandi eða erlendis.

Virðulegi forseti. Það er nú leitt að þurfa að ónáða menntamálaráðherra og formann menntamálanefndar á fundi þeirra hér í þingsalnum en ég get svo sem bara gert hlé á ræðu minni ef forseti (Gripið fram í.) vill fresta fundi þar til þessum fundarhöldum úti í sal lýkur. Mér finnst nú eðlilegt að þeir sem málið varðar hlusti á ræður þeirra sem hér tala. (Gripið fram í.) Ég vil nú segja, virðulegur forseti, að ég hef töluverðar efasemdir um að svo hafi verið, a.m.k. var það ekki að sjá. (Gripið fram í.) Nei, nei, það er svo sem alveg rétt.

Ég geri einnig athugasemd við síðustu málsgreinina þar sem um er að ræða mjög opið framsal á heimild til ráðherra að setja reglur um námsaðstoð og hnýta það svo við að þær reglur taki mið af tengslum við íslenskt samfélag eða vinnumarkað. Hvað þýðir það, tengsl við íslenskt samfélag eða vinnumarkað? Það getur í raun og veru þýtt það sem ráðherranum sýnist hverju sinni af því að þegar hann hefur fengið þá heimild er það hans að túlka hvað í henni felst. Það eru mýmörg dæmi um það í heimildalöggjöf að ráðherra hefur túlkað löggjöf eins og honum sýnist, jafnvel á óvæntan hátt sem ekki var gerð grein fyrir þegar frumvarpið var rætt eða menn höfðu látið sér detta í hug að gæti verið um að ræða.

Þess vegna er mér frekar illa við svona opnar heimildir og ég óska eftir því að hv. menntamálanefnd fari yfir þennan lagatexta til að reyna að ramma inn, afmarka heimildirnar, afmarka framsalið á lagasetningarvaldinu og gera það skýrara þannig að mönnum sé það betur ljóst en sjá má í þessu frumvarpi hvaða réttindi er verið að veita hverjum á hvaða tíma.

Það segir t.d. í athugasemdum við þessa síðustu málsgrein að þetta komi í stað ákvæðis sem er í gildandi lögum þar sem stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna er heimilt að ákveða að námsmenn frá Norðurlöndum hafi tiltekinn rétt. Það segir þó ekkert um það í lagatextanum. Það er ekkert afmarkað við námsmenn frá Norðurlöndum og engin trygging fyrir því þegar þetta er orðið að lögum að þeir námsmenn hafi þann rétt sem þeir hafa í dag. Menn eiga það þá bara undir ráðherranum á hverjum tíma — sem getur túlkað þetta og gefið út reglugerð eða sett reglur og breytt þeim — hvaða réttur á í hlut. Þetta er ekki þægileg staða fyrir námsmenn sem þurfa að vita hvaða reglur gilda og hvers þeir mega vænta á þeim tíma sem þeir ætla að stunda nám, um þá námsaðstoð sem er í boði af hálfu íslenska ríkisins. Þess vegna er nauðsynlegt að frumvarpið sé skýrt og reglurnar sem byggja á því séu augljósar þannig að það komi mönnum ekki í opna skjöldu sem síðar kann að verða ákveðið.