135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[21:36]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það er bagalegt fyrir gæði umræðunnar á þinginu að það sé hlaupið á milli mála eins og hér er verið að gera. Okkur almennum þingmönnum er ætlað að fara úr þáttum sem heyra undir félagsmálaráðherra og síðan yfir í þætti sem varða menntamálaráðherra og þá loksins í mál sem varða hæstv. samgönguráðherra.

En það verður að taka því og sætta sig við það sem að manni er rétt þegar maður getur engu breytt í því efni. En það verður að segja það alveg eins og er að það er ekki líklegt að vandað löggjafarstarf komi út úr slíku eða að umræðurnar skili miklu varðandi vönduð lögskýringargögn svo sem ætlast má til varðandi það sem kemur frá Alþingi.

Hæstv. samgönguráðherra mælti fyrr í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010 og rakti þar í góðri ræðu helstu breytingar og aðgerðir sem til stæðu og í sjálfu sér er margt gott um það að segja.

Í gær var ég á fundi með íbúum í svokölluðu þriðja hverfi í Reykjavík, þ.e. því hverfi sem liggur að helstu umferðaræð landsins, Miklabraut í Reykjavík frá Háaleitisbraut og niður fyrir Kringlumýrarbraut. Þar var verið að kynna hugmyndir og tillögur um að gera þá leið greiðari með gerð mislægra gatnamóta og að setja umferð í stokk á þessari mestu umferðaræð þjóðarinnar. Þetta var mjög góður og gagnlegur fundur og þar kom fram að íbúasamtökin í hverfinu höfðu unnið mjög gott og gagnlegt starf við það að gera grein fyrir því og undirbúa og sýna fram á þarna væri hægt að fara ákveðnar leiðir.

En þar var líka bent á, hæstv. samgönguráðherra, að þrátt fyrir að þær tillögur gangi eftir sem varða þennan hluta Miklubrautarinnar þá koma aðrir og austari hlutar Miklubrautarinnar sem á eftir að gera til þess að þar sé um greiða leið að ræða. Ég bendi á að þessi umferðaræð sem þjónar öllu landinu — því hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá er þetta mikilvægasta umferðaræð landsins, þ.e. austur/vestur öxullinn í Reykjavík — er gjörsamlega sprungin. Við erum með öxulinn í Reykjavík eða sem sagt frá Reykjanesi og inn í Reykjavík, þ.e. suður/norður öxulinn sem er líka gjörsamlega sprunginn. Til viðbótar því sem gerist að öðru leyti varðandi samgönguáætlunina eins og hún var ákveðin á sínum tíma þá er hvergi gert ráð fyrir því að það sé hraðað eða gert neitt í því að lagfæra þessa hluti sem er einn mesti ljóður á samgöngukerfi okkar í þéttbýli.

Ég hlýt því að spyrja og velta fyrir mér þegar ég horfi hér yfir þingsali: Hvar eru þingmenn Reykvíkinga til þess að fjalla um Sundabraut og það með hvaða hætti væri hægt að hraða aðgerðum hvaða hana varðar? Það er tvímælalaust eitt mesta hagsmunamál bæði íbúanna hér og alls landsins.

En, virðulegi forseti, hér í salnum er enginn þingmaður Reykvíkinga, nema ég. (Gripið fram í: Ert þú ekki þingmaður Reykvíkinga?) Nema ég, sagði ég. Enda sagði hæstv. forseti að ég færi ógjarnan austur fyrir Elliðaár sem ég geri að vísu á hverjum degi en það er annað mál.

Það er til vansa að það sé ekki hugsað um það að leysa þau vandamál sem eru mestu vandamál samgangna í þéttbýli. Og þegar um er að ræða tillögu eins og þá sem hér um ræðir, um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun, þá tel ég að það sé mjög mikilvægt að þarna væri getið um það með hvaða hætti samgönguráðherra, framkvæmdarvaldið hyggst leysa, með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar sér að leysa þennan vanda.

Nú skal ég leyfa öllum að njóta sannmælis og öllum að fá það sem þeir eiga skilið. Þá ber að benda á það að hið langa kyrrstöðutímabil R-listans í Reykjavík leiddi af sér ákveðna stöðnun í umferðar- og samgöngumálum þessa svæðis þar sem menn gengu ekki frá tillögum eða unnu heimavinnuna sína til þess að hægt væri að gera kröfur og standa á hagsmunamálum allra landsmanna hvað varðar umferð í þéttbýli, þessara þjóðvega í þéttbýli.

Hvað svo sem því líður þá er það samt sem áður ekki vansalaust fyrir ríkisvaldið að láta þá hluti gerast með þeim hætti sem hér er, að á löngum tímum kvölds og morgna séu jafnmiklir erfiðleikar í samgöngum sem raun ber vitni.

Því hefur lýst yfir hvað meðalhraðinn væri á þessum samgönguæðum, sem er allgóður, en það er nú einu sinni þannig að umferð mun aukast, bílum mun fjölga og fólki fjölgar. Þar af leiðandi verða vandamálin meiri og meiri svo fremi að ekki sé brugðist við. Að mínu viti er það nauðsynlegasta forgangsverkefni í samgöngumálum í þéttbýli að Sundabrautin verði að veruleika sem allra fyrst og að allt verði gert sem hægt er til þess að láta þá framkvæmd verða sem allra fyrst.

Þá er það líka tvímælalaust verulega mikið atriði og eitt mikilvægasta atriðið varðandi samgöngur í þéttbýli, að austur/vestur öxullinn á höfuðborgarsvæðinu og norður/suður öxullinn verði þannig að þar sé um akfæra vegi að ræða þar sem fólk getur haldið eðlilegum meðalhraða.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem fyrr hafa talað í umræðunni um að það er mikilvægt að leggja vegi, þ.e. annars vegar vestur frá Reykjavík og hins vegar yfir Hellisheiði til Selfoss þar sem um er að ræða vegi sem eru 2+2 eða sem sagt aðskildar akreinar, a.m.k. tvær í hvora áttina. Það er eitt sem ber að varast, hæstv. samgönguráðherra, og það er að hugsa og skammta í samgöngumálum. Þegar við leggjum út í mannvirkjagerð þá má ekki hugsa eða horfa rétt fram fyrir tærnar á sér heldur verður að hugsa til framtíðar og leggja aðeins varanlegri vegi og miða við það að þeir geti þjónað tilgangi til lengri tíma en nokkurra ára.

Þegar af þeirri ástæðu tel ég og tek undir með hv. þm. Árna Johnsen og hv. þm. Grétari Mar þar sem það kom fram í máli þeirra fyrr í umræðunni, í þessari sundurslitnu margklofnu umræðu, að það er nauðsynlegt að hafa og ganga vel frá þeim samgönguæðum sem eiga að liggja út frá Reykjavík til Suðurlands.

Við búum hér í mesta þéttbýli landsins og innan eða í um það bil klukkutímaakstursfjarlægð frá Reykjavík eða höfuðborgarsvæðinu búa yfir 70% landsmanna. Það hlýtur því að vera forgangsatriði að greiðar leiðir séu að og frá þessu svæði og greiðar leiðir innan þess. Því þar erum við að tala um hagsmunaatriði varðandi sparnað en við erum líka að tala um annað, hæstv. samgönguráðherra, við erum að tala um mannslíf. Og meðan það dregst að ganga frá viðunandi samgöngumannvirkjum í þéttbýli þá kostar það slys og það er það sem við verðum að horfast í augu við.

Þess vegna er það forgangsatriði þegar gera á breytingar eða koma með hugmyndir um breytingar eins og þessa, að menn skoði það að eyða slysagildrum og gera akvegina öruggari. Það hlýtur að vera forgangsatriði.