135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[22:14]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er að verða mjög skrautlegur sólarhringur þar sem við erum að ræða þessi mörgu mál. Hér hefur margítrekað komið fram að mál hafa verið tekin út af dagskrá eða umræðu frestað og mál sett inn aftur eftir því sem ráðherrarnir hafa dottið inn. Ekki stóð til að vera með þennan fund nema fram á kvöld, það var samþykkt í atkvæðagreiðslu og ég hélt satt að segja að forseti mundi ekki beita því úrræði eftir nýju þingsköpin að fara í atkvæðagreiðslu þegar ágreiningur var um það hvort fundurinn ætti að standa fram á kvöld. Það var samþykkt með 26 atkvæðum, 6 greiddu atkvæði gegn því. Ég hef fylgst með því í allan dag og mér sýnist að það séu einkum og sér í lagi þeir sex þingmenn sem voru andvígir því að fundur stæði fram á kvöld sem hafa verið samviskusamlega í fundarsalnum í allan dag en hinir sem samþykktu fund fram á kvöld eru meira og minna flognir burt með vissum undantekningum, (Gripið fram í.) með vissum undantekningum eins og ég sagði. Mér finnst þetta afskaplega einkennilegt ráðslag, herra forseti, (Forseti hringir.) mér finnst að gera eigi kröfu um það að þeir sem heimta og vilja kvöldfund sitji þá hér. En ég óska eftir því að forseti taki ákvörðun um að fundi verði slitið (Forseti hringir.) þegar þessu máli er lokið.