135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[22:16]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun. Í henni er m.a. fjallað um ýmislegt sem flýtir samgönguáföngum frá því sem áður var áætlað. Sá sem hér stendur er mikill áhugamaður um bættar samgöngur hér á landi og fagnar því í sjálfu sér að rætt sé um að reyna að flýta vegaframkvæmdum, nauðsynlegum vegaframkvæmdum sem vissulega margir hefðu viljað sjá þegar orðnar að veruleika. Hvað um það, betra er samt að una við það sem gott er þótt seint komi og taka heils hugar á móti því sem lagt er til í þessari fjögurra ára áætlun.

Þessar flýtiaðgerðir í vegamálum sem menn kalla svo í ríkisstjórninni eru sumar hverjar a.m.k. ekki komnar til framkvæmda enn þá og óvíst að þær komist til framkvæmda á þessu ári, sem var þó vissulega áætlað þegar ríkisstjórnin tilkynnti að vegna niðurskurðar í þorskafla yrði verklegum framkvæmdum flýtt hér á landi og reynt að styrkja þannig byggðirnar frekar en verið hefur og efla þar verkefni sem gæti að einhverju leyti orðið til þess að fólk sæi fyrir sér bjartari framtíð en boðið er upp á nú um stundir með aflatillögum hæstv. sjávarútvegsráðherra, að ég tali ekki um eftir þá spá sem nú liggur fyrir eftir síðasta vorrall Hafrannsóknastofnunar sem ekki gefur tilefni til aukinnar bjartsýni í þeim efnum.

Þá er líka rétt að hafa í huga, hæstv. forseti, að þegar aðgerðir voru boðaðar um niðurskurð þorskafla orðaði forsætisráðherra það svo að þjóðfélagið væri svo afskaplega vel á vegi statt að það væri aldrei betur til þess fallið að taka á sig skerðingar í verkefnum og tekjum en einmitt um þessar mundir. Það dæmi hefur því miður algjörlega snúist við og ýmislegt bendir til þess í þjóðfélaginu núna að sú tíð sem forsætisráðherra sá fyrir sér og reyndar hæstv. fjármálaráðherra líka síðastliðið haust í ræðu sinni um fjárlögin sé horfin út í blámóðuna af ýmsum orsökum og að okkur steðji ýmiss vandi í efnahagsmálum og framtíð þessa lands í atvinnulegu tilliti sem menn áttu ekki von á á haustdögum, alla vega ekki innan ríkisstjórnarinnar.

Ég held að það sé rétt munað hjá mér að hinar vísu greiningardeildir bankanna vöruðu ekki við þeirri vegferð sem við stöndum frammi fyrir núna á Íslandi. Fjármálaráðuneytið spáði því ekki heldur. Það er því margt breytt í þjóðfélagi okkar frá því að menn tóku ákvörðun um að skera niður atvinnu með því að skerða þorskaflann svo harkalega sem raun ber vitni og þess vegna væri enn frekar ástæða til að reyna að flýta þessum framkvæmdum, þ.e. koma þeim á framkvæmdastig en ekki bara að setja þær inn í áætlun, en gert hefur verið fram til þessa.

Ég hygg að það sé ekki á marga landshluta hallað þótt því sé haldið fram af þeim sem hér stendur í ræðustól að Vestfjarðakjálkinn hafi setið harkalega eftir í vegaframkvæmdum á undanförnum árum og þar þurfi virkilega að taka til hendinni. Við erum hins vegar að lenda í því að deilt er um vegarstæði og framkvæmdir frestast á milli ára, eins, tveggja og jafnvel þriggja og það er auðvitað hörmulegt eins og staðan í samgöngumálum og vegakerfinu er á Vestfjörðum. Þetta á sérstaklega við um Barðaströndina alla, austur- og vesturhluta Barðastrandar. Hér eru hins vegar áætlanir um að reyna að flýta gerð vegar á vesturhluta Barðastrandar og væntanlega gengur það eftir. Ég legg sérstaka áherslu á það í þessari umræðu, hæstv. samgönguráðherra, að reynt verði að koma þeirri framkvæmd sem allra fyrst af stað. Menn þurfa að fara að sjá að gengið sé til verks í því að leggja þá nýju vegarkafla sem gert er ráð fyrir, ekki síst vegna þess að miklar deilur standa um þá framkvæmd sem við vildum fara með þverun fjarðanna fyrir vestan Bjarkarlund. Um það standa enn þá deilur hvernig vegarstæðið eigi að vera þó að langflestir Vestfirðingar hafi verið ákaflega sáttir við það sem þar var lagt til um þverun fjarða og styttingu leiða.

Við í Frjálslynda flokknum höfum á undanförnum árum verið miklir talsmenn þess að gert yrði átak í vegamálum í landinu. Fyrir nokkuð mörgum árum mótuðum við okkur þá stefnu að sett yrði í forgang að gera jarðgöng og stytta leiðir, auka umferðaröryggi með því og spara tíma og áhættu fólks sem ferðast um vegina. Ég sé í þessari flýtiáætlun að verið er að taka til hendinni í því. Búið er að tímasetja hvenær Dýrafjarðargöngum og Norðfjarðargöngum lýkur og eins er búið að tímasetja hvenær Vaðlaheiðargöngum og Óshlíðargöngum lýkur.

Þetta er nýmæli, hæstv. forseti. Ef við horfum aftur í tímann er það nýmæli að búið sé að setja jafnmörg verkefni í jarðgöngum á áætlun og hér er gert á næstu fáu árum í þeirri samgönguáætlun sem við ræðum nú. Ég vænti þess, einkanlega þar sem hv. Alþingi samþykkti þingsályktun frá okkur frjálslyndum á síðasta þingi um að vísa því til ríkisstjórnarinnar að haldið verði áfram að leggja drög að því að gera þau jarðgöng sem við teljum að þurfi að gera á Íslandi til að koma vegakerfi okkar niður á það sem ég kalla láglendisvegi, akfæra láglendisvegi allan ársins hring. Ég tel að með þeim merku áföngum sem hér eru boðaðir sé verið að stíga verulegt skref í öryggismálum þjóðarinnar í vegagerð og einnig til að stytta vegalengdir, sem ekki er vanþörf á hér á landi, og tryggja varanlegar samgöngur.

Sama tel ég eiga við um þverun fjarða og þær hugmyndir sem hafa verið uppi í þeim efnum. Sem betur fer hafa menn á undanförnum árum tekið þá stefnu að eðlilegt væri að fara yfir firðina og tryggja full vatnsskipti í þeim frekar en að fara með fjörunum og gjörbreyta fjörulandslagi í hverjum firðinum á fætur öðrum. Ég tel að það sé betri vegagerð að fara yfir firðina en að breyta fjörulandslaginu í öllum fjarðarbotnum, bæði út frá öryggi, út frá vetrarfærð og eins umhverfislega séð. Við höldum lífríkinu í fjörðunum svo til óbreyttu þó að vegur komi yfir fjarðarbotnana eða firðina ef við tryggjum að vatnsskiptin, sjóskiptin í fjörðunum séu eðlileg og lífríkið haldist.

Síðan er auðvitað hægt að taka undir það sem snýr að höfuðborginni sem er langt mál og verður ekki klárað í þessari ræðu minni. En ég undrast svolítið hvernig fjallað er um samgöngumál í höfuðborginni og ég átta mig ekki alveg á því, miðað við alla þá umferð sem nú er á götum borgarinnar, hvernig menn ætla að leysa samgöngumálin í Reykjavík ef setja á niður 20–30 þúsund manna byggð í vesturborginni með óbreyttum samgönguæðum. (Forseti hringir.)

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti, og óska þess að það sem hér er boðað gangi fljótt eftir í bættum samgöngum.