135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[22:37]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kom margt athyglisvert fram hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og það er víst að þetta er umfangsmikið mál og að mörgu leyti flókið að fjalla um á stuttum tíma. Ég get líka tekið undir með hv. þingmanni að það tekur alltaf talsverðan tíma að átta sig á framsetningunni í þessari tillögu til samgönguáætlunar.

Ég hlustaði með athygli á hv. þingmann og mig langar til að spyrja, herra forseti, eða fá nánari skýringar hv. þingmanns á hug hennar til flugvallarins í Reykjavík, þ.e. hvaða skoðanir hún hafi á stöðu flugvallarins í Reykjavík eins og nú er. Hún talaði nokkuð um þann búnað sem er á brautunum, reyndar töluvert um stuttu brautina en einnig um aðra af þeirri lengri. Ég skildi það þannig að hv. þingmaður teldi nauðsynlegt að flugvöllurinn í Reykjavík væri vel búinn. Mig langar bara til að fá fram hvort hv. þingmaður sé á þeirri skoðun að það sé ástæða til að fara í fjárfestingar á Reykjavíkurflugvelli þar sem hann er núna.