135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[22:40]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun. Þar er náttúrlega fjallað um alls konar samgöngur. En ég ætla ekki að fara sérstaklega ofan í það. Mig langar til þess að lesa 40. gr. stjórnarskrárinnar. Þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Og í 41. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Svo ætla ég að lesa 26. gr. fjárreiðulaganna. Þar er þetta áréttað, með leyfi herra forseta:

„Í frumvarpi til fjárlaga skal leitað heimilda til lántöku, lánveitinga og ríkisábyrgða á fjárlagaárinu. Í athugasemdum skal jafnframt vera yfirlit um heildarlántökur ríkisaðila, lánveitingar til einstakra aðila utan A-hluta og um veitingu ríkisábyrgða og skiptingu þeirra eftir helstu ábyrgðarflokkum.“

Af hverju er ég að segja þetta? Vegna þess að menn eru búnir að finna nýjan aðila til að borga alls konar hluti. Jarðgöng verða til, þau detta ofan af himnum. Það er einhver sem borgar. Það er ekki ríkið. Þetta heitir einkaframkvæmd. Það virðist vera að guð almáttugur borgi þarna af gæsku sinni. Og þetta kemur ekki fram í fjárlögum. Þetta kemur ekki fram í fjáraukalögum. Þetta kemur ekki fram í lánsfjárlögum. Þetta kemur fram hérna í tillögu til þingsályktunar sem hefur ekkert lagagildi. Börnin okkar verða hissa þegar þessar byrðar detta á þau í framtíðinni. Og til þess eru þessi ákvæði í stjórnarskránni. Til þess eru ákvæðin í stjórnarskránni að hindra það að börnin okkar verði hissa á þeim skuldbindingum sem við erum búin að leggja á herðar þeirra. Hér stendur meðal annars í þessu skjali á síðu 3 neðst, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir samkvæmt áætlun þessari að byggð verði ný Vestmannaeyjaferja á árunum 2008–2010 sem sigli milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar.“

Það er fínt. Síðan stendur, með leyfi herra forseta:

„Ferjan og rekstur hennar hefur verið boðin út í einkaframkvæmd samkvæmt heimild í samgönguáætlun 2007–2010. Ekki er gert ráð fyrir að ríkissjóður eignist ferjuna að loknum 15 ára samningstíma og því verði um árlegar þjónustugreiðslur ríkissjóðs að ræða vegna hennar frá og með hausti 2010 í 15 ár. Gert er ráð fyrir að greiðslur þessar verði um 8.800 millj. kr. á tímabilinu ...“

Það eru 560 milljónir á ári. Halda menn, herra forseti, að fjármálaráðherrar framtíðarinnar geti sagt: „Nei, mér kemur þetta ekki við“? Ég er hræddur um ekki. Þetta er aldeilis skuldbinding fyrir ríkissjóð í blóra við stjórnarskrána. Þetta kemur hvergi fram annars staðar en hér.

Síðan stendur á síðu 9, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að Vaðlaheiðargöng verði byggð í einkaframkvæmd með veggjöldum.“ — Það er fínt. — „Göngin verði þó fjármögnuð að hálfu af ríkissjóði með jöfnum árlegum greiðslum eftir að framkvæmdatíma lýkur árið 2011 í 25 ár.“

Í 25 ár rigna einhverjar greiðslur inn á ríkissjóð og fjárlaganefnd Alþingis, skyldi hún getað neitað því? Ónei. Hún bakar sér þá skaðabótaábyrgð. Það er búið að ráðstafa peningum ríkissjóðs án þess það standi í lánsfjárlögum eða í fjárlögum.

Ef menn halda að það sé hægt að plata skattgreiðendur framtíðarinnar, börnin okkar og barnabörn á þennan hátt þá mótmæli ég því. Þau eru ekki svona heimsk.

Síðan stendur hér á sömu síðu 9, með leyfi herra forseta:

„Gert er ráð fyrir að Suðurlandsvegur frá Hveragerði að sýslumörkum Gullbringusýslu verði gerður í einkaframkvæmd. Vegurinn verður fjármagnaður af ríkissjóði með jöfnum árlegum greiðslum eftir að framkvæmdum lýkur árið 2010 í 25 ár.“

Hér er sama sagan. Það kemur allt í einu flottur vegur, tvær akreinar í báðar áttir með bili á milli. Flott, fínt, fínt. Allir eru voða hamingjusamir og enginn borgar. Auðvitað borgum við þetta. Það er ekki víst að þeir þingmenn sem hér sitja núna borgi þetta endilega. Þeir verða komnir á eftirlaun. En börnin okkar munu borga þetta í 25 ár, til ársins 2030 og eitthvað, til 2033 verða menn að borga þetta, verða skattgreiðendur þessa lands að borga þetta. Ég skil ekki þennan feluleik, herra forseti. Ég vil að svona hlutir komi fram í fjárlögum og í fjáraukalögum og sem skuldbinding ríkissjóðs. Þetta er að verða allt of algengt.

Tónlistarhúsið hérna niður við höfn sem kostar, sumir segja 40 milljarða, það er heldur ekki neins staðar. (Gripið fram í: Breyta því ...) Það er heldur hvergi. Ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að segja að það ylli ekki þenslu af því það væri í miðri Reykjavík en 10 millj. kr. framkvæmd á Vestfjörðum mundi valda mikilli þenslu og ekki hægt að fara út í. Það er (Gripið fram í.) hins vegar miklu alvarlegra mál. Nei. Málið er að menn eru að búa til ákveðinn feluleik til að plata sjálfa sig og skattgreiðendur um stöðu ríkissjóðs.

Það er sitthvað fleira í þessu, svona minni háttar. Hér stendur: „Markaðar tekjur fluttar frá fyrra ári“ um 361 milljón. Það er nú svo sem ekki stór peningur. Svo virðist vera að ríkissjóður sé að lána sjálfum sér. Lántökur þarna á árinu 2008, 1.406 milljónir, litlar, teknar að láni í tillögu til þingsályktunar, ekki í lánsfjárlögum, ekki í fjárlögum heldur í tillögu til þingsályktunar. Þar er tekin ákvörðun um að ríkissjóður taki lán hjá einhverjum.

Svo er þarna Vestmannaeyjaferjan. Þar er hætt við að setja 725 millj. kr. árið 2009 eða 2010. Það þarf ekki lengur af því guð almáttugur borgar þetta (Gripið fram í.) og svo framvegis.

Það sem mér þótti skrýtnast í þessu máli er Grímseyjarferjan. Það er gert ráð fyrir því að hún kosti árið 2008 260 milljónir og svo árið 2009 260 milljónir líka. Ég hélt að það væri búið að klára þessa ferju, herra forseti. Ég hélt að hún væri farin að sigla. Liggur þá ekki kostnaðurinn fyrir? Hvernig getur stofnkostnaður af ferju sem er að sigla fallið á árið 2009? Ég skil það bara ekki. (Gripið fram í: Hættu að borga.) Ja. (Gripið fram í: Borga seinna.) Borga seinna, já. Það er nefnilega málið. Ríkissjóður er að taka lán einhvers staðar. (GAK: Þetta er ríkisstjórnin þín sem ...) Þetta er gömul venja (Gripið fram í.) og ég vil fara að hætta þessu. (Gripið fram í.)

Þetta er mjög skrýtin (Gripið fram í.) tillaga til þingsályktunar þegar maður fer að skoða allar lánveitingar fram og til baka út og suður, frestanir og ég veit ekki hvað. Þetta er orðið mjög ógagnsætt og börnin okkar og erlendir lántakendur ríkissjóðs og aðrir, hugsa ég, eru hættir að sjá í gegnum þetta, þ.e. hvað ríkissjóður raunverulega skuldar.

Ég minni líka á Egilshöll sem R-listinn byggði og datt ofan af himnum og enginn borgaði. Ég minni líka á fótboltavelli sem menn hafa byggt suður í Keflavík og víðar sem duttu líka ofan af himnum og enginn borgaði. Halda menn að enginn borgi þetta? (Gripið fram í.) „Kópavogsbær borgar“ kemur fram í frammíkalli. Jæja, það er þá alla veganna einhver skynsemi einhvers staðar. Einhverjir skattgreiðendur vita hvað búið er að leggja á þá. Og það finnst mér vera grundvallaratriði að skattgreiðendur bæði ríkis og sveitarfélaga viti hvað sveitarstjórnarmenn og hvað alþingismenn eru búnir að leggja á þá til framtíðar.