135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[23:10]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir þá hugmynd hv. þm. Ármanns Kr. Ólafssonar um að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taki við vegunum innan síns svæðis og endurskipuleggi umferðarkerfið í sameiningu með tilliti til þess einmitt sem hann sagði, að efla almenningssamgöngur, koma upp forgangsakreinum fyrir strætó þannig að fólk sjái það og finni að þeir sem ferðast með strætó þurfa ekki að hafa áhyggjur af olíukreppunni eða háu olíuverði og þurfi ekki heldur að hafa áhyggjur af því að bíða og sitja fastir í teppu í umferðinni. Ég held að þetta sé mjög góð hugmynd og það er verðugt verkefni fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að ganga í þetta mál því að mér sýnist að samgönguyfirvöld á hinu háa Alþingi hafi a.m.k. ekki hingað til haft nægilega mikinn metnað til að byggja upp nauðsynlegar almenningssamgöngur á þessu svæði. Ég fagna þessum hugmyndum hv. þm. Ármanns Kr. Ólafssonar.